Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja skoða ógildingu ógildingar

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Þingmenn úr fjórum flokkum undrast það að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál ógilti rekstrarleyfi fyrir 17.500 tonna laxeldi á Vestfjörðum. Gunnar Bragi Sveinsson Miðflokki og Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri grænum, segja að stjórnvöld verði að íhuga að koma í veg fyrir ógildingu á rekstrarleyfum tveggja laxeldisstöðva á Vestfjörðum.

Þingmennirnir ræddu málið í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Ekki var gerð grein fyrir öðrum valkostum í umhverfismati sem fyrirtækin skiluðu inn en þeirri leið sem fyrirtækin vildu fara. Úrskurðarnefndin ógilti því rekstrarleyfi sem Matvælastofnun gaf út.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, segir stöðuna alvarlega þar sem rekstrarleyfið hafi verið fengið og framleiðslan farin af stað. „Svona við fyrstu sýn og yfirlestur er þetta hreinn áfellisdómur yfir stjórnsýslunni. Þetta hefur ekkert með fyrirtækin að gera eða þeirra starfsemi, heldur er þetta bara stjórnsýslan sem ekki er að tala saman virðist vera.“

 

„Ég held að ef að menn ætla sér að láta þessi fyrirtæki og þessa starfsemi fara í gegnum alla síuna aftur þá held ég að menn loki þessu bara og fari ekkert af stað aftur hreinlega,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. Hann sagði svo mikið í húfi að stjórnvöld verði að skoða alvarlega hvort þau grípi inn í og ógildi úrskurð nefndarinnar. 

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði margt vekja furðu við úrskurðinn. Þannig sé krafa gerð um mat á óraunhæfum valkostum, svo sem geldfiski sem ekki sé markaður fyrir og landkvíum sem séu margfalt dýrari en sjókvíaeldi. „Það er verið að fella menn á tækniatriðum sem þurfti kannski ekki mikla könnun til og ætti að vera nokkuð augljóst í stjórnsýslu þessara mála að er ekki raunhæfur valkostur í stöðunni í dag.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri grænum, vísaði til þess að þegar óvissa reis um Þeistareykjalínu hefði verið hægt að bæta úr því sem upp á vantaði. „Þá fór þetta í gegn án þess að það þyrfti lagasetningu til. Ég tel að það sé það sem nú er verið að gera af hálfu stjórnvalda, að reyna að fresta réttaráhrifum og leysa þetta þannig að allir geti verið sáttir við. Þetta eru formgallar sem er ekki ásættanlegt að setji allt atvinnulíf á hliðina.“