Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vilja sérhæft fyrirburaeftirlit áfram

02.12.2013 - 21:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Áform um að leggja niður sérhæft fyrirburaeftirlit á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur vakið hörð viðbrögð. Móðir fyrirbura segir mikilvægt að geta leitað til fagfólks sem vinnur daglega með fyrirbura.

Undanfarin ár hafa barnalæknir og hjúkrunarfræðingur sinnt sérhæfðri ung- og smábarnavernd fyrir fyrirbura sem fæddust fyrir 32. viku meðgöngu eða voru léttari en 1.500 grömm. Foreldrar fá heimavitjanir eftir útskrift af vökudeild og fylgst er náið með heilsufari, vexti, hegðun og líðan barna fram að grunnskólaaldri. Fyrstu árin er fyrirburum einnig fylgt eftir af læknum vökudeildar. Nú stendur til að leggja þessa þjónustu niður. Í staðinn sinni heilsugæslustöðvarnar börnunum.

Félag íslenskra barnalækna mótmælir þessu harðlega, Ingólfur Einarsson, er formaður félagsins. „Það að leggja þetta niður gerir það að verkum að þekkingin glatist að okkar mati og það þarf að sinna þessum hópi betur ef eitthvað er, fylgjast með heilsufari sem getur þróast á mismunandi hátt og ekki síst taugaþroska hjá þessum börnum,“ segir Ingólfur. 

Vilja að ákvörðunin verði endurskoðuð

Þjónustan krefjist mikillar sérþekkingar og langan tíma taki að byggja hana upp. Mikilvægt sé fyrir þroskaferli fyrirbura að fá sérhæfða þjónustu snemma. Hann gagnrýnir einnig að ekki sé búið að undirbúa nægilega vel hvað taki við. 22 foreldrar fyrirbura hafa sent heilsugæslunni bréf og krafist þess að ákvörðunin verði endurskoðuð. Foreldrar fyrirbura hafi misjafnar sögur af heilsugæslustöðvum og óttast að starfsfólk þar búi ekki yfir nægilegri sérþekkingu, Íris Árnadóttir er ein þeirra. „Það eru allt aðrar spurningar sem vakna þegar maður á fyrirbura. Við eigum þrjú börn, þetta eru allt aðrar spurningar sem við þurfum að fá svör við núna en áður og okkur finnst gott að geta leitað til fagfólks sem er að vinna með fyrirbura alla daga,“ segir Íris. Hlynur Tumi fæddist eftir 28 vikna meðgöngu í desember í fyrra. Íris segir það hafa skipt miklu máli að sami hjúkrunarfræðingur og starfar á vökudeild hafi fylgt honum eftir í fyrirburaeftirlitinu.