Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja selja bankana, Isavia og RÚV

24.10.2015 - 14:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðismenn samþykktu á landsfundinum núna á þriðja tímanum ályktanadrög fjárlaganefndar flokksins með breytingartillögum. Þar var meðal annars samþykkt að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum, hluta Isavia og rekstur flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem og RÚV.

 

Landsfundur Sjálfstæðismanna hófst í gær og stendur yfir helgina. Um 1200 manns sitja fundinn.

Vilja standa utan ESB
Björn Bjarnason fyrrverandi alþingismaður og ráðherra og formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins kynnti drög að ályktun nefndarinnar á landsfundinum í Laugardalshöll í dag. Þar er meðal annars áréttað að hagsmunum Íslands sé best borgið með því að standa utan Evrópusambandsins með því að aðildarviðræðum við Evrópusambandið hafi verið hætt. Breytingartillaga kom fram um að aðildarumsóknin yrði dregin til baka og var hún kolfelld.

Eldri Sjálfstæðismenn fái fleiri sæti á lista
Samband eldri sjálfstæðismanna vill að sjötugir og eldri geti aflað sér tekna án þess að bætur almannatrygginga verði skertar. Þeir vilja að hraðað verði byggingu Landspítalans við Hringbraut og að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni. Þetta kom fram í máli Halldórs Blöndal formanns Sambands eldri sjálfstæðismanna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir stundu. Þá vilja eldri sjálfstæðismenn að tafarlaust verði hætt að skerða framfærsluuppbót og þeir vilja að ríkið taki meiri þátt í tannlæknakostnaði eldri borgara. Þá benti Halldór á að eldri sjálfstæðismenn vilji fá fleiri sæti á listum flokksins til þings og ekki síst til sveitarstjórna.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV