Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja róttækar breytingar á hagkerfinu

15.03.2017 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Þorvaldur Þorvaldsson var endurkjörinn formaður Alþýðufylkingarinnar og Vésteinn Valgarðsson varaformaður á landsfundi flokksins liðna helgi. Aðalumfjöllunarefni landsfundarins voru flokksstarf og skipulag flokksins en einnig voru samþykktar ályktanir og kosið í framkvæmdastjórn.

Meðal þess sem landsfundurinn samþykkti var að flokkurinn stuðli að róttækum stefnubreytingum, sem feli í sér að hagkerfið miðist við verðmætasköpun, aukinn jöfnuð og að grunnþarfir allra verði uppfylltar. Til að svo megi verða, segir í ályktun landsfundarins, þarf að félagsvæða innviði samfélagsins, þar með talið fjármálakerfið.

Þá segir í ályktun flokksins að eina leiðin til lausnar húsnæðisvanda landans sé að losa íbúðarhúsnæði undan stjórn markaðarins og tryggja öllum rétt til heimilis með félagslegri fjármögnun.

Ólafur Jónsson vitavörður gerður að heiðursfélaga

Eins og fyrr segir var Þorvaldur Þorvaldsson endurkjörinn formaður Alþýðufylkingarinnar og Vésteinn Valgarðsson var kjörinn varaformaður. Aðrir sem kosnir voru í framkvæmdastjórn eru: Elín Helgadóttir sjúkraliði, Erna Lína Baldvinsdóttir nemi, Guðmundur Sighvatsson byggingafræðingur, Tamila Gámez Garcell kennari og Þorvarður B. Kjartansson háskólanemi.

Fjórir fulltrúar voru kjörnir í miðstjórn en að öðru leyti er miðstjórnin skipuð fulltrúum svæðisfélaganna auk framkvæmdastjórnar. Þá var samþykkt að gera Ólaf Þ. Jónsson, fyrrum vitavörð, að heiðursfélaga Alþýðufylkingarinnar.

 

larao's picture
Lára Ómarsdóttir