Vilja rækta þörunga til framtíðar

09.12.2018 - 20:15
Mynd:  / 
„Við erum þeirrar skoðunar að framtíðin sé í fjörunni, við vitum hins vegar að þegar milljarðar heims kasta sér í fjöruna þá er það ekki sjálfbært," segir Guðrún Hallgrímsdóttir, matvælaverkfræðingur og ein stofnenda Hyndlu. Hyndla er þriggja manna fyrirtæki sem býr yfir ómældum áhuga á að nýta þörunga og gerir nú tilraunir með að rækta þörunginn klóblöðku á landi, í tilraunastöð Hafrannsóknastofnunar á Stað við Grindavík.

„Við höldum að ef við getum ræktað þetta almennilega á landi, eins og tilraunir okkar hafa bent til, þá getum við opnað heilmikla möguleika fyrir okkur í framtíðinni," segir Gestur Ólafsson, einn þremenninganna í Hyndlu. 

Auk þess að hafa fengið aðstöðu í tilraunastöð Hafrannsóknastofnunar þá fær hópurinn faglega ráðgjöf frá Karli Gunnarssyni sem stundar rannsóknir á þangi og þara hjá Hafrannsóknastofnun. Karl stakk upp á því við Hyndlu að þau gerðu tilraunir með rauðþörunginn klóblöðku sem er nýgreind tegund hér á landi.

„Það hefur komið í ljós að tegundir í þessari ættkvísl hafa í sér efni sem hemja fjölgun veira eins og hæggengum veirusjúkdómum eins og HIV og herpes veirur að því leyti er hún áhugaverður þörungur en svo er hún líka ágætismatþörungur," segir Karl. 

Þremenningarnar í Hyndlu hafa hvert um sig heila starfævi að baki og þau starfa saman fyrir kunningsskap. Bjarni og Gestur þekkjast í gegnum börnin sín og Guðrún og Gestur eru gamlir skólafélagar. Þá er Karl nágranni Gests. Öll búa þau yfir sameiginlegum áhuga á að nýta þörunga.

„Þarna gætum við opnað fyrir og ræktun um allt land og lagt grunninn að nýjum atvinnuvegi fyrir Íslendinga. Og þetta finnst okkur vera mjög spennandi verkefni," segir Gestur.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi