Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja rækta og ala andarunga á Tjörninni

08.02.2013 - 09:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Ástand Tjarnarfugla er óviðunandi og ekki í samræmi við mikilvægi fuglanna fyrir borgarbúa. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um ástand fuglastofna Tjarnarinnar. Lagt er til að hafið verði ræktunarstarf og ungarnir aldir á Tjörninni. Þrjár andategundir gætu horfið þaðan innan nokkurra ára.

Skýrslan var lögð var fyrir umhverfis-og skipulagsráð Reykjavíkurborgar í vikunni. Þar kemur meðal annars fram að varpstofnum gargandar, duggandar og æðar hafi hnignað verulega og að óbreyttu hverfi þessar tegundir úr fuglalífi Tjarnarinnar í Reykjavík innan fárra ára.  

Í skýrslunni segir einnig að þessi hnignun í viðkomu andarunga hafi varað í tuttugu ár og á því séu þrjár meginskýringar: fæðuskortur, hnignun búsvæða og afrán. Þrír helstu afræningjar Tjarnarinnar eru, samkvæmt skýrslunni, sílamáfur, hrafn og kettir.  Mesti ungadráparinn er sílamáfur en síðustu ár hafa 100 til 400 sílamávar verið flesta daga í júní, júlí og ágúst.

Skýrsluhöfundar benda á að brauðgjafir heilli sílamáfinn en að sumir þeirra virðist koma gagngert til að fanga unga. Þá hefur hröfnum fjölgað í borgarlandinu en þeir eru skæðir eggjaræningjar. Kettir sækja að Tjörninni og varplöndunum í Vatnsmýrinni alla daga, þeir drepa andarunga og hafa orðið uppvísir að því að drepa kollur á hreiðrum.

Skýrsluhöfundar leggja því til að hafið verði ræktunarstarf, líkt og stundað var á árunum 1956 til 1970, þegar egg voru klakin og ungarnir aldir á Tjörninni. Þá vilja þeir einnig að ráðinn verði eftirlitsmaður til að sjá um umhirðu fuglanna.