Vilja ræða mál Róhingja í Öryggisráðinu

23.09.2017 - 02:55
epa06219044 Activists of the Bangladesh khelafat Andolon attend a protest rally against the Myanmar genocide after the weekly Friday prayer in Dhaka, Bangladesh, 22 September 2017. Myanmar's State Counsellor Aung San Suu Kyi on 19 September said the
„Þjóðarmorði“ á Róhingjum mótmælt í Dhaka, höfuðborg Bangladess.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Svíþjóð, Frakkland, Bretland, Bandaríkin og þrjú ríki önnur hafa kallað eftir fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að ræða skálmöldina í Rakhine-héraði í Mjanmar. AFP-fréttastofan greinir frá þessu. Farið er fram á að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, ávarpi Öryggisráðið og upplýsi það um herferð stjórnarhersins í Mjanmar gegn Róhingjum í Rakhine.

Auk fyrrnefndra fjögurra ríkja eru það Egyptaland, Kasakstan og Senegal sem kalla eftir fundinum. Eþíópía fer nú með formennsku í Öryggisráðinu og talsmaður eþíópísku sendinefndarinnar segir unnið að því að koma slíkum fundi á dagskrá.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að ríflega 420.000 Róhingjar hafi flúið óöldina í Rakhine á síðust vikum og leitað skjóls í Bangladess. Hermenn stjórnarhersins, sem opinberlega eru í herför gegn uppreisnarmönnum úr röðum Róhingja, eru sagðir fara með báli og brandi um allt hérað, myrðandi og nauðgandi, og brenna niður heilu þorpin.

Sameinuðu þjóðirinar hafa jafnað framgöngu stjórnarhersins gagnvart Róhingjum við þjóðernishreinsanir og Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, kallar aðgerðirnar þjóðarmorð. Öryggisráðið hefur þegar kallað eftir því að herinn hætti hernaði sínum í héraðinu en því kalli hefur ekki verið svarað og flótti Róhingja heldur áfram.

Utanríkisráðherra Banglaess greindi frá því á fimmtudag að alls séu nú um eða yfir 800.000 Róhingjar frá Rakhine þar í landi. Lagði ráðherrann til að Sameinuðu þjóðirnar komi upp sérstökum griðasvæðum fyrir Róhingja í Mjanmar, svo þeir geti snúið aftur til síns heima, óhræddir, öruggir og með reisn. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi