
Forsendur Hvammsvirkjunar hafa breyst frá því umhverfismat var gert fyrir fimmtán árum. Fulltrúi minnihlutans í Rangárþingi ytra segir ferðaþjónustu til dæmis hafa aukist. Skoða þurfi hvort þörf sé á nýju mati.
„Já við hefðum kosið að við hefðum verið látin vita með tímasetningu, og verið boðin til að hlýða á. Og þá getað spurt,“ segir Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, fulltrúi Á-lista í Rangárþingi ytra.
„Nú á eftir að taka málið fyrir í sveitarstjórn og það mun væntanlega verða umræða um það þar á næstunni. Það þarf að rifja upp umhverfismatið sem var gert 2003, og það er allt sem bendir til að það þurfi að taka það til einhverrar endurskoðunar, því strangt til tekið var kvöð um endurskoðun að tíu árum liðnum. “
Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir það sjálfsagt að skoða hvort forsendur hafi breyst. „Það hefur náttúrulega aukist heilmikið ferðaþjónusta hér á svæðinu og forsendur hljóta að einhverju leyti að hafa breyst.“
Margrét Harpa telur að margir vonist eftir því að virkjunin skili störfum til langframa í heimabyggð. Sveitarfélögin þurfi líka að móta umhverfis- og auðlindastefnu til að ákveða framhaldið.
„Það eru náttúrulega þessar vatnsaflsvirkjanir sem eru alltaf í gangi, og eins líka vindmyllurnar. Það er mikill uppgangur í þeim, svo þarf að móta stefnu í þessum málum sem öðrum.“