Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja nýja ferðamannamiðstöð á Hveravöllum

08.12.2016 - 16:24
Mynd með færslu
 Mynd: AOK - Verkstæði arkitekta - Hveravallafélagið
Gera á miklar breytingar á húsnæði Hveravallafélagsins á Hveravöllum, fái félagið til þess tilskilin leyfi. Stefnt er að byggingu nýs gistiheimilis, með gistingu fyrir 80-100 manns en í dag geta þar verið 70 manns í bráðabirgðahúsnæði.

Í fyrra greindi fréttastofa frá breytingum á Hveravöllum, þegar matsalur var stækkaður og nýtt eldhús var sett upp. Með því átti að taka betur á móti ferðamönnum, en á hverju ári koma þangað á milli 40-50 þúsund manns. Ferðaþjónustufyrirtækið Allrahanda á stóran hlut í Hveravallafélaginu og hefur á síðustu árum verið ráðst í ýmsar framkvæmdir. Til dæmis var borað eftir köldu vatni um tvo kílómetra frá svæðinu og vatnsleiðsla lögð að húsum félagsins.

Nauðsynlegar framkvæmdir

Nú er stefnt að mun meiri uppbyggingu, en nýja húsið verður 640 fermetrar. Þar verður ferðamannamiðstöð, gistirými, veitingasalur og gestastofa auk salerna. Þá verður einnig byggður nýr aðkomuvegur, nýtt bílastæði og tjaldsvæði. Sömuleiðis stendur til að girða af hluta friðlýsta svæðisins, leggja um það göngustíga og græða upp afgirt svæði.

Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá Allrahanda, segir að þessar framkvæmdir séu nauðsynlegar. Þær séu ekki til þess hugsaðar að fjölga þeim ferðamönnum sem fara um svæðið, heldur til að bæta þjónustuna við þann fjölda sem þangað kemur núna.

Mynd með færslu
 Mynd: Hveravallafélagið
Skáli Ferðafélags Íslands verður fjarlægður.

Byggja að hálfu utan friðlandsins

Skipulagsstofnun metur nú hvort gera þurfi umhverfismat fyrir framkvæmdirnar og geta allir sent inn athugasemdir við greinargerð Hveravallafélagsins, þar sem farið er yfir rökin fyrir stækkuninni og mögulegum umhverfisáhrifum. Félagið telur að breytingarnar muni koma svæðinu til góða, því byggingar verði fjarlægðar af friðlandinu á Hveravölllum og nýja byggingin verður að hálfu innan friðlandsins og að mestu í hvarfi frá aðalhverasvæðinu.

„Við erum að skila til baka landsvæði sem er raskað og færum okkur út fyrir friðlandið. Þessar byggingar munu ekki fjölga ferðafólki á svæðinu, heldur taka betur á móti því og styrkja umgjörðina. Þetta er í raun viðbragð, við erum að bregðast við brýnni þörf þeirra sem koma þarna og þurfa þjónustu. Við viljum gera það með þeim hætti að þeir gangi vel um náttúruna um leið. Við gætum gleymt okkur í að setja upp hindranir en við teljum að við séum að koma í veg fyrir að það þurfi og að ferðamenn fái meiri skilning og beri virðingu fyrir svæðinu,“ segir Þórir.

Mynd með færslu
 Mynd: Hveravallafélagið
Nýtt bílastæði verður byggt og því gamla verður breytt.

Framleiða rafmagn með olíu

Nýlega var sett upp stór rotþró og fráveitumál eru því í ágætis farvegi. Annað gildir hinsvegar um rafmagn, en í dag er allt rafmagn framleitt með rafstöð sem gengur fyrir olíu. Hún myndi áfram duga til að sjá nýju húsnæði fyrir rafmagni en þó er vonast til þess að hægt verði að finna varanlega lausn. Hún gæti falist í tengingu við dreifikerfi eða í svokallaðri tvenndarvél sem myndi nýja jarðhitann á svæðinu til að knýja túrbínu.

Ekki er líklegt að húsið verði tilbúið fyrr en eftir 2-3 ár. Þegar niðurstaða um umhverfismat liggur fyrir þarf Húnavatnshreppur að samþykkja deiliskipulag og að því loknu geta framkvæmdir hafist, en þar sem Hveravellir eru á hálendinu er tími til framkvæmda afar takmarkaður.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV