Vilja ný bílastæði ofan við Almannagjá

25.07.2018 - 19:41
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Flytja á meirihluta bílastæða á Þingvöllum upp fyrir Almannagjá á næstu árum, samkvæmt drögum að stefnu þjóðgarðsins til næstu tuttugu ára. Endurskoðun á stefnu þjóðgarðsins hefur staðið yfir undanfarin misseri.

Þingvallanefnd hefur nú lagt fram drög og er stefnt að því að þau verði samþykkt í haust. Þjóðgarðurinn er um 240 ferkílómetrar að stærð. Nær allir ferðamenn halda sig á sama svæði, á þingstaðnum forna, sem er aðeins þrír til fjórir ferkílómetrar að stærð.

„Það liggur því vel við að laga umferðarflæðið þar, til að gera það skýrt en einnig til að létta álagið, sérstaklega bíla og allra farartækja þarna niðri. Broddurinn í þessari tillögu, megin nýjungin er, að það verður reynt að lyfta bílastæðunum að mestu leyti upp fyrir Almannagjá, upp á efri barm Almannagjár,“ segir Einar Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. 

Mynd með færslu
Einar Sæmundsen, þjóðgarðsvörður Þingvöllum. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Bílastæði skeri ekki í augu á útsýnisstað

Samkvæmt drögunum verða bílastæðin og ný þjónustumiðstöð norðan við Öxarárfoss, á svæðinu á milli Öxarár, fyrir ofan Almannagjá og yfir á Langastíg. „Þannig að bílastæðin skeri ekki í augu þegar menn horfa yfir fallegu sigdældina og það séu ekki alltaf bílar að þvælast fyrir þegar fólk er á ferðinni fyrir neðan,“ segir Einar. 

Vistvænar samgöngur til og frá bílastæðum

Lengri ganga verður frá nýju bílastæðunum að þinghelginni en nú er. Hugmyndin er að nota vistvænar samgöngur fyrir þá ferðamenn sem það kjósa. Áfram verða þó bílastæði á gamla staðnum, til dæmis fyrir fatlaða. Sú þróun að færa bílastæði fjær helstu áningarstöðum á sér nú stað víða um heim, að sögn Einars.

Um ein og hálf milljón ferðamanna heimsótti Þingvelli í fyrra. Það eru um tveir af hverjum þremur ferðamönnum sem koma til landsins. Tekið er við umsögnum við stefnumörkun þjóðgarðsins til 17. september.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi