Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja neyslurými fyrir þá sem sprauta sig

16.01.2018 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚv - RÚV
Rauði krossinn í Reykjavík vill að sérstöku neyslurými, fyrir fólk sem sprautar sig í æð með vímuefnum, verði komið á laggirnar. Viðræður voru hafnar við fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Þórir Guðmundsson, forstöðumaður Rauða krossins í Reykjavík segir að aðstæður fólksins séu mjög bágbornar.

Talið er að um 700 manns á Íslandi sprauti sig með vímuefnum í æð og að meðaltali 12 - 13 deyi á hverju ári.  Þórir segir að í fyrra hafi 17 látist af völdum ofskömmtunar. „Það eru fleiri en dóu í bílslysum á Íslandi þannig að þetta er mjög alvarlegt mál.“

Neyslurými hafa verið í notkun í Evrópu í þrjá áratugi og eru um það bil níutíu í heiminum.  Markmiðið með þeim er að skapa þeim sem sprauta sig aðstæður til að neyta efnanna á sem öruggastann hátt. Þeir fá sprautur og hreinar nálar og hjúkrunarfólk er á staðnum sem veitir þeim ráðgjöf. Hugmyndin er að minnka sakaðann af neyslunni  eins og hægt er.  

Aðstaða þeirra sem sprauta sig með vímuefnum á götum Reykjavíkur er mjög bágborin. „Það er aukið heimilisleysi sem þýðir að menn eru að sprauta sig við mjög vondar aðstæður. Það er frost núna og menn eru úti að gera þetta. Þannig að það er mikil þörf á því að það sé hægt að komast inn í hlýtt húsnæði  þar sem er heilbrigðisstarfsfólk.“

Þeir sem eru á götunni leita ekki í hefðbundna heilbrigðisþjónustu og fara ekki á sjúkrahúsin. Stöðugt fleiri leita þó til frú Ragnheiðar sem Rauði krossinn hefur rekið í nokkur ár. Rauði krossinn hefur verið í samræðum við stjórnvöld.

„Við áttum hér ágætan fund með embættismönnum frá landlækni og með heilbrigðisráðherra og hans embættismönnum sl. ágúst. Og niðurstaða fundarins var í rauninni sú að það voru allir mjög jákvæðir fyrir því að þyrfti að koma þessu á fót.“

Hafið þið sett ykkur í samband við núverandi heilbrigðisráðherra? Nei það er verkefni næstu daga að taka upp þráðinn í þeim viðræðum sem voru farna af stað.“