Vilja minnka mengun frá skemmtiferðaskipum

28.06.2018 - 15:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Innan tveggja ára taka gildi alþjóðleg lög sem banna siglingar skemmtiferðaskipa sem knúin eru svartolíu. Samkvæmt íslenskum lögum er þegar bannað að nota slíka olíu þegar skip liggur í höfn. Skipafélög hafa mörg gripið til aðgerða til að draga úr mengun.

Það er mengun frá allri umferð til og frá landinu, jafnt flug- sem skipaumferð. Vélar skipa brenna svartolíu og það á við um flest þau skemmtiferðaskip sem hingað sigla.

Bann við notkun á svartolíu

Pétur Ólafsson, stjórnarformaður Cruise Iceland, samtaka hafna sem taka á móti skemmtiferðaskipum, segir ýmislegt gert til að draga úr mengun þessarra skipa. „Þessi skip mega ekki nota, og nota ekki, svartolíu við bryggju. Það er bara bannað samkvæmt íslenskum lögum. Og það nota gasolíu við bryggju sem mengar mun minna. Mörg þessarra skipa nota líka þessa léttari olíu við innsiglingu inn firðina og jafnvel í kringum landið.“ Og hann segir að fyrsta janúar 2020 taki gildi lög á heimsvísu, sem banni notkun á svartolíu og þá verði olíuknúin skip að skipta yfir í gasolíu.

Ný skip á næstu árum knúin gasi

En skipum sem noti aðra orkugjafa en olíu fari fjölgandi og hönnun nýrra skipa miði að því að draga úr mengun. „Af um það bil 95 skipum sem búið er að panta og koma á markað næstu átta árin, verða um 20 knúin LNG eða gasi,“ segir Pétur. „Jafnvel eru menn að þróa skip sem eru knúin sólarorku og rafmagni. Og ég veit að á næsta ári kemur hingað skip sem kemur til með að sigla hringinn í kringum landið á LNG. Annað skip kemur til með að sigla inn og út Eyjafjörð á rafmagni.“

Kanna hvort hægt verði að raftengja skipin í höfn

Og Pétur segir nú verið að kanna hvort það sé tímabært og framkvæmanlegt að tengja skemmtiferðaskipin við rafmagn þegar þau liggi í höfn. Til að raftengja stærstu skipin þurfi 17 til 20 megawött, en minni skipin þurfi u.þ.b. 1,5 megawött. Því fylgi mikill kostnaður að útbúa aðstöðu fyrir svo umfangsmikla raftengingu og hafnirnar ráði varla við það nema með stuðningi úr ríkissjóði.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi