Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja ljúka viðræðum um sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allar líkur eru á að viðræður um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnvatnssýslu hefjist að nýju á næstunni. Stefnt er að sameiningu fjögurra sveitarfélaga, en hlé var gert á viðræðum vegna sveitarstjórnarkosninga. Tvær af fjórum sveitarstjórnum hafa tilnefnt fulltrúa í nýja sameiningarnefnd. 

Formlegar viðræður um sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnvatnssýslu hófust síðasta haust. Þar eru Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og sveitarfélagið Skagaströnd. Sveitarfélögin skipuðu fulltrúa í sameiningarnefnd sem hefur notið liðsinnis ráðgjafa frá fyrirtækinu Ráðríkri. Ekki tókst að ljúka viðræðum fyrir kosningarnar í vor. Því var ákveðið að gera hlé og leyfa nýjum sveitarstjórnum að taka ákvörðun um framhaldið. 

Sveitarstjórnir taki afstöðu fyrir lok ágúst

Nú virðist hreyfing komin á málið. Sveitarstjórn Blönduósbæjar fjallaði um fyrirhugaða sameiningu í gær. Tekið var fyrir erindi frá Þorleifi Ingvarssyni, fráfarandi formanni sameiningarnefndarinnar, um stöðu viðræðna. Þorleifur segir í samtali við fréttastofu að stefnt sé að því að nýjar sveitarstjórnir taki afstöðu til áframhaldandi viðræðna fyrir lok ágúst. 

Vill efla sveitarstjórnarstigið með sameiningum

Sveitarstjórn Blönduósbæjar samþykkti samhljóða að halda áfram og tilnefndu fulltrúa í nýja sameiningarnefnd. Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, segist ekki í vafa um að farsælast sé að ljúka viðræðum. „Ég hef ekki heyrt neitt annað en að það sé hugur um að halda áfram,“ segir Valdimar. „Ég er mikill sameiningarsinni og vill efla sveitarstjórnarstigið. Það verður ekki gert öðruvísi en með sameiningum,“ segir hann. Byrjað verði á fjórum sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu og síðan leiði framtíðin í ljós hvort verði af frekari sameiningum, til dæmis við sveitarfélagið Skagafjörð. 

Hreppsnefnd Skagabyggðar er einnig búin að tilnefna fulltrúa í nýja sameiningarnefnd. „Það er vilji fyrir því að halda áfram þessum viðræðum,“ segir Dagný Rósa Úlfarsdóttir, oddviti Skagabyggðar. Hún segir misjafnar skoðanir meðal íbúa um kosti þess að sameina, en æskilegt sé að ljúka viðræðum. 

Tilnefna fulltrúa í nefndina á næsta fundi

Jón Gíslason, oddviti Húnavatnshrepps, segir í samtali við fréttastofu að sveitarstjórn hafi ekki rætt málið formlega. „Við ætlum að funda í næstu viku og tökum þetta fyrir þá,“ segir Jón. Hann segir liggja nokkurn veginn fyrir að sveitarstjórn vilji halda áfram viðræðum. Á næsta fundi verði líklega tilnefndir fulltrúar í sameiningarnefndina. Halldór G. Ólafsson, oddviti Skagastrandar, tekur í sama streng. Málið hafi ekki verið rætt formlega en miðað við stefnuskrár framboða fyrir sveitarstjórnarkosningar sé mikill vilji til að halda áfram. „Ég á ekki von á öðru en að það verði látið gerast og fólk fái að kjósa um þá valkosti sem í boði verða,“ segir Halldór.