Vilja leyfa gæludýr í félagslegum íbúðum

15.05.2018 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: Kópavogur
Velferðarráð Kópavogs samþykki samhljóða í gær tillögu um að leyfa hunda- og kattahald í félagslegu húsnæði á vegum bæjarfélagsins. Samkvæmt tillögunni verður íbúum leyft að hafa dýr á heimili sínu ef sérinngangur er á íbúð. Ef inngangurinn eða stigagangur er sameiginlegur þarf samþykkti tveggja þriðju hluta íbúanna.

Málið fer nú til bæjarstjórnar og bæjarráðs Kópavogs. Gæludýrahald hefur verið með öllu bannað í félagslegu húsnæði í Kópavogi. Kristín Sævarsdóttir, varabæjarfulltrúi Samfylkingar, lagði fram tillöguna til velferðarráðs. Hún kynnti sér málið í nokkrum sveitarfélögum og þar var hunda- og kattahald í félagslegu húsnæði alls staðar bannað. Hún kveðst ekki vita til þess að gæludýrahald hafi verið leyft í félagslegu húsnæði neins staðar hér á landi.

„Ég er alsæl með niðurstöðuna og finnst þetta mikið jafnréttismál fyrir gæludýraeigendur. Með þessu gilda sömu reglur um íbúa í félagslegu húsnæði og aðra. Mér finnst sjálfsagt að íbúar í félagslegu húsnæði sitji undir sömu reglur og aðrir. Ég vona að Kópavogur verði fyrsta sveitarfélagið af mörgum sem samþykkir þetta.“ Hún segir það hafa gerst reglulega að fólk hafi ekki getað komist á biðlista eftir félagslegu húsnæði þar sem það eigi gæludýr, þrátt fyrir að hafa uppfyllt önnur skilyrði.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi