Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vilja leggja Íbúðalánasjóð og ÁTVR niður

17.12.2015 - 09:47
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Viðskiptaráð Íslands, sem er samtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í íslensku atvinnulífi, leggur til að ríkisstofnunum verði fækkað um 118 - úr 188 í 70. Meðal annars er lagt til að ÁTVR og Bankasýsla ríkisins verði lögð niður.

Með fækkun ríkisstofnana myndu að mati Viðskiptaráðs sparast umtalsverðir fjármunir og þjónusta hins opinbera batna vegna faglegs ávinnings sameininga.

Viðskiptaráð leggur fram 30 tillögur að fækkun ríkisstofnana með samrekstri, sameiningum og aflagningu starfsemi.

Fjármálaeftirlit verði hluti af Seðlabanka

 

Meðal þess sem lagt er til er að embættismenn verði starfsmenn Stjórnarráðsins en ekki einstakra ráðuneyta, rekstur safna á vegum hins opinbera verði sameinaður undir einni stofnun, Ríkisskattstjóri og Tollstjóri verði sameinaðir, Fjármálaeftirlitið verði hluti af Seðlabanka Íslands, rekstur dómstóla verði sameinaður undir einni stofnun og Sérstakur saksóknari sameinist Ríkissaksóknara.

Þá er meðal annars lagt til að starfsemi Umboðsmanns skuldara og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði hætt, auk þess sem Íbúðalánasjóður, ÁTVR og Bankasýsla ríkisins verði lögð niður, og starfsemi þeirra hætt.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV