Vilja komast að héruðum Róhingja í Mjanmar

19.09.2017 - 13:43
epa06187982 Rohingya Muslim families enter into Bangladesh after crossing the Bangladesh-Myanmar border, in the Ulubunia region, Bangladesh, 06 September 2017. According to news reports, a boat carrying Rohingya Muslim refugees, who were fleeing the
Rohingjar á flótta frá Mjanmar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum segir mikilvægt að nefndin fá óheftan aðgang að héruðum Róhingja múslima í Mjanmar til þess að rannsaka meint mannréttindabrot þar.

Stjórnvöld í Mjanmar eru hvött til þess að endurskoða ákvörðun sína um að banna rannsóknarnefndinni aðgang. Mannréttidasamtökin Amnesty International gagnrýna Aung San Suu Kyi, leiðtoga Myanmars, fyrir að nota ekki tækifærið í sjónvarpsávarpi sínu í nótt til þess að fordæma ofbeldi hersins gegn Róhingja múslimum.

Herinn sakaður um þjóðernishreinsanir

Sameinuðu þjóðirnar hafa sakað herinn um ofsóknir gegn Róhingum og þjóðernishreinsanir. Aung San Suu Kyi segist finna til með öllum þeim sem þjást vegna átakanna í Rakhine héraði landsins. Hún segir stjórnvöld áhyggjufull yfir þeim fjölda múslima sem hafa flúið átakasvæði yfir til Bangladess.

Viðbragða hennar við ástandinu í Rakhine hefur lengi verið beðið. Þrengt er að Róhingja-múslimum í héraðinu, þeir stráfelldir og þorp þeirra brennd. Róhingjar njóta ekki almennra réttinda í Mjanmar. Suu Kyi segist finna til með fórnarlömbum átakanna og fordæmir þau mannréttindabrot sem kunna að hafa verið framin í átökunum.

410.000 Róhingjar hafa flúið

Hún segir stjórnvöld vera reiðubúin til þess að staðfesta réttarstöðu þeirra 410 þúsund Róhingja sem flúið hafa yfir landamærin undanfarinn mánuð. Verður það gert til að auðvelda þeim að snúa aftur heim. Suu Kyi segir Mjanmar ekki mega tvístrast vegna trúarskoðana þjóðarinnar. Meirihluti þjóðarinnar er búddatrúar en Róhingjar eru múslimar eins og áður segir.

Margir neita að kalla Róhingja annað en Bengala og neita að viðurkenna þá sem Mjanmara þar sem menningarsaga þeirra eigi ekkert skylt við ríkið.
Suu Kyi sagði í ávarpinu að stjórnvöld væru reiðubúin að fá alþjóðlega eftirlitsmenn til landsins hvenær sem er til þess að fylgjast með ástandinu í Rakhine.

Þeir sem hafa flúið Rakhine hafa sagt sögur af manndrápi, nauðgunum, pyntingum og íkveikjum af hálfu öryggissveita Mjanmars. Suu Kyi segir sveitirnar eiga að fylgja ströngum kröfum og að gerð verði rannsókn á hvort mannréttindi hafi verið brotin í Rakhine.

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi