Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja klára heimskautsgerði innan þriggja ára

23.01.2019 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Stefnt er að því að setja aukinn kraft í byggingu heimskautsgerðis á Raufarhöfn og helst að ljúka því á næstu þremur árum. Góðir hlutir gerast hægt, segir einn stjórnenda. 

Byrjað var að byggja gerðið norðvestan við þorpið árið 2004. Það er hlaðið grjóti og á að mynda hring sem er um 54 metrar í þvermál, nokkurs konar sólúr, en einnig vettvang fyrir norræna goðafræði. Á íbúafundi á Raufarhöfn um síðustu helgi var rætt um framvindu og næstu skref.

Næsta áfanga lokið fyrir sumarið

Gunnar Jóhannesson, stjórnarmaður, segir að verkefnið þokist í rétta átt. Nýverið hafi verið gert deiliskipulag fyrir svæðið og í fyrra nýtt bílastæði. Nú sé unnið að nýrri gönguleið. „Frá nýju bílastæði og upp að austurhlið gerðisins. Þetta er ekki bara einhver göngustígur því þetta er hluti af heildarmyndinni. Þarna verður brú sem við köllum Bifröst, það er að segja brú milli heima,“ segir Gunnar. Áætlað er að þessi áfangi kosti um 30 milljónir og honum verði lokið fyrir sumarið.

„Góðir hlutir gerast hægt“

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og sveitarfélagið Norðurþing styðja verkefnið, en hér áður fékk það nokkrum sinnum framlög af fjárlögum. Framkvæmdir eru áfangaskiptar og er framvinda algjörlega háð fjármögnun, sem hefur gengið upp og ofan. „Þetta hefur tekið dálítið langan tíma hingað til, en það er hins vegar auðvitað þannig að góðir hlutir gerast hægt,“ segir Gunnar. 

Laðar að ferðamenn

Stjórnendur hafa háleit markmið. „Okkar vonir miðast við að það gerist heilmikið á næstu þremur árum og vonandi klárast,“ segir Gunnar.

Hann segir að heimskautsgerðið sé þegar farið að vekja athygli og laða að ferðamenn, ekki síst erlenda ljósmyndara. „Að geta verið þarna með þetta form sem er til staðar, þennan vettvang, sem forgrunn fyrir til dæmis norðurljósamyndatökur ef fólk er svo heppið. Það er náttúrulega bara frábært,“ segir Gunnar.