Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vilja íslenska fíkniefnaleitarhunda

09.08.2011 - 10:29
Erlend lögregluyfirvöld vilja kaupa íslenska fíkniefnarleitarhunda. Fjórir af átta hvolpum tíkar lögreglunnar á Suðurnesjum og hunds Tollgæslunnar þykja efnilegir leitarhundar, en ríkislögreglustjóri vill ekki selja. Verkefnin eru næg hér á landi.

Í ársskýrslu Ríkislögreglustjóra fyrir árið 2010 kemur fram að lögreglan sé nú með fíkniefnaleitarhunda  í öllum landsfjórðungum. Í fyrra fundu þeir efni í 384 skipti. Verð á fíkniefnahundum erlendis hefur snarhækkað í kjölfar efnahgsbreytinga. Í sparnaði tók lögreglan til þess ráðs að að kynna tík embættisins á Suðurnesjum fyrir hundi Tollgæslunnar. Þau kynni skiluðu átta hvolpum og hefur nú komið í ljós að fjórir þeirra teljast efnilegir til fíkniefnaleitar og hafa staðist próf í þeim fræðum. Íslenskir leitarhundar eru eftirsóttir  og vilja erlend lögregluyfirvöld gjarnan kaupa þá. Þeim tilboðum hefur hins vegar ekki verið tekið, þar sem ræktunin er nýhafin og rétt nær að mæta þörfinni hérlendis

Sérsveit ríkislögreglustjóra fór í sextíu og þrjú vopnuð verkefni á síðasta ári samkvæmt skýrslunni.  Verkefni sérsveitarinnar voru yfir 4200 á árinu, langflest almenn lögreglu- eða umferðarverkefni. Sérsveitarverkefnin voru 276, þar af 63 vopnuð eins og áður segir. Flest úrköllin voru í miðbæ Reykjavíkur.

Akstur lögreglu hefur dregist saman um rúman fjórðung  frá 2006. Samdrátturinn er vegna niðurskurðar og breytts verklags. Lögreglubílar óku samtals 4,2 milljón kílómetra í fyrra, sex prósentum færri en árið 2009.