
Vilja heimastjórnir í sameinuðu sveitarfélagi
Formlegar viðræður um sameiningu Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Djúpavogshrepps hafa staðið síðan í október. Viðræðurnar byggjast á skoðanakönnun sem gerð var fyrir ári, þar sem íbúar allra sveitarfélaganna lýstu sig fylgjandi sameiningu.
Kallað eftir tillögum frá íbúunum
Eftir vinnu starfshópa undanfarna mánuði er nú komið að íbúafundum sem haldnir verða fjóra fyrstu dagana í apríl. „Þessir íbúafundir verða haldnir með svona þjóðfundaformi,“ segir Björn Ingimarsson, formaður sameiningarnefndarinnar. „Við erum þar að kalla eftir því að íbúarnir komi, kynni sér þessar hugmyndir, sem menn hafa verið að vinna með, og komi með tillögur.“
Leið sem ekki hefur verið farin áður hérlendis
Það er algengt, þegar sveitarfélög eru sameinuð, að fólk óttist að þá færist völdin öll á einn stað. Í þessu tilfelli á að passa að svo verði ekki, með því að kjósa fjórar heimastjórnir sem hafa ákveðið ákvörðunarvald. Þetta hefur ekki verið gert áður hér á landi, segir Björn, og ekki sjálfgefið að sveitarstjórn megi framselja völd til heimastjórna. Því sé nú verið að kanna, í samstarfi við starfsfólk stjórnarráðsins, hvort þetta sé gerlegt.
Vilja standa vörð um að allir íbúar hafi sama rétt
Og fyrir framtíðarþróun sameinaðs sveitarfélags sé afar mikilvægt að þetta takist. „Menn hafa stundum lent í því og við heyrum þá gagnrýni frá sveitarfélögum sem hafa farið minni inn í stærri sameiningar að þau hafi bara tapað sínum rétti og íbúarnir séu réttlausir eftir sameiningu. Þetta er eitt af því sem við erum að horfa til þess að standa vörð um,“ segir Björn.