Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Vilja hámark á kjörtímabil forseta

17.05.2012 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikill meirihluti þjóðarinnar telur að það ætti að vera hámark á því hversu mörg kjörtímabil forseti Íslands megi sitja. Rúm 70 prósent landsmanna eru á móti því að embætti forseta Íslands verði lagt niður.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði nýverið afstöðu fólks til forsetaembættisins og hafði stofnunin sjálf frumkvæði að gerð könnunarinnar.

Spurt var: Kjörtímabil forseta Íslands er fjögur ár. Ert þú á þeirri skoðun að það ætti að vera hámark á því hversu mörg kjörtímabil einn forseti má sitja?

Af þeim sem svöruðu sögðust 64% vera á því að það ættu að vera mörk á því hversu lengi forseti megi sitja, en 36% sögðust telja að engin mörk ættu að vera á því.

Þá var einnig spurt hversu mörg kjörtímabil fólk teldi að sami forseti ætti að fá að sitja að hámarki. Um þriðjungur þeirra sem svöruðu taldi að hann ætti að fá að sitja tvö kjörtímabil, tæpur helmingur að hann ætti að fá að sitja þrjú og fimmtungur að hann ætti að fá að sitja fjögur eða fleiri kjörtímabil.

Loks var spurt: Ert þú sammála eða ósammála því að leggja skuli forsetaembættið niður?

14% þeirra sem svöruðu sögðust vera því mjög eða frekar sammála, 13% hvorki sammála né ósammála, en 73% sögðust vera því mjög eða frekar ósammála.

Könnunin var gerð dagana 17. apríl til 7. maí, rúmlega 4.000 manns voru í úrtaki og svarhlutfall var 63%.