Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja halda meirihlutasamstarfi áfram

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Framsóknarflokkur, L-listi og Samfylkingin hafa ákveðið að hefja viðræður um áframhaldandi meirihlutasamstarf í bæjarstjórn á Akureyri. „Við ætlum að gefa okkur tíma fram að mánaðamótum til að sjá hvort við náum ekki saman,“ segir Hilda Jana Gísladóttir, nýr oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, en hún var einmitt á fundi með meirihlutanum þegar fréttastofa náði tali af henni síðdegis.

Einu breytingarnar sem urðu á Akureyri frá síðustu sveitarstjórnarkosningum eru að Björt framtíð bauð ekki fram og Miðflokkurinn kom manni inn í bæjarstjórn. Meirihlutaflokkarnir héldu hver sínum tveimur mönnum í bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkur tapaði 2,88 prósenta fylgi en hélt engu að síður sínum þremur bæjarfulltrúum. Vinstri græn héldu sömuleiðis sínum eina fulltrúa á Akureyri.

Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn á Akureyri sem bætir við sig fylgi frá síðustu kosningum, alls 3,32 prósentum. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV