Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja girða fyrir skattaskjól og leyndina

24.05.2016 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nauðsynlegt er að íslensk stjórnvöld grípi til fjölþættra aðgerða til að sporna við starfsemi skattaskjóla og þeirri leynd sem þau bjóði. Þetta er niðurstaða efnahags- og viðskiptanefndar en hún birti í dag skýrslu með tillögum að fjölmörgum lagabreytingum í þeirri viðleitni. Frosti Sigurjónsson er formaður nefndarinnar sem gerir 19 ábendingar að lagabreytingum.

Í skýrslu nefndarinnar segir að auk þess að komast undan skattgreiðslum hafi skattaskjól verið nýtt í margvíslegum ólöglegum tilgangi. Aflandsfélög hafi falið raunverulegt eignarhald og verið nýtt til þess að komast hjá lögum og reglum.

Rætt var við starfsmenn fjölmargra stofnanna, ráðuneyta og samtaka, svo sem frá skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins og fjármálafyrirtækja og mörgum fleiri.

Á meðal þess sem nefndin leggur til er að rýmka heimildir skattsins til að áætla tekjur tengdar aflandsfélögum, herða refsingu, lengingu fyrningartíma, refsa vegna ráðgjafarþjónustu varðandi aflandsfélög, aukið aðgengi að fjármálaupplýsingum vegna SWIFT-greiðsla, upplýsa í ársreikningum um greiðslur til stjórnenda og margt fleira.

Þá er bent á að setja þurfi strangari reglur um eignarhald á aflandsfélögum og jafnvel banna það nema í sérstökum tilvikum og þá að uppfylltum skilyrðum um upplýsingagjöf. Þá er lagt til að upplýsa verði um endanlega eigendur í hlutaskrá til að koma í veg fyrir leynd á eignarhaldi og að ráðgjöf um skattaskjól verði háð upplýsingaskyldu eða ólögleg.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV