Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja gæsluvarðhald vegna manndrápstilraunar

04.11.2018 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Lögreglan fer í dag fram á gæsluvarðhald yfir manni sem er grunaður um tilraun til manndráps seinni partinn í gær. Maðurinn er talinn hafa beitt hníf eftir að áflog brutust út milli tveggja manna á Geislagötu við útibú Arionbanka á Akureyri. Blóðugur hnífur fannst við húsleit lögreglu á heimili mannsins. Maðurinn sem var stunginn fór í aðgerð í gærkvöld en er ekki talinn vera í lífshættu.

Fram kemur í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar að lögreglan hafi kallað eftir gögnum úr eftirlitsmyndavélakerfum og að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manninum seinnipartinn í dag.

Þá er lögreglan einnig með til rannsóknar áflog milli tveggja manna í vistaverum kísilverksmiðjunnar PCC við Húsavík. Mennirnir voru báðir fluttir á Sjúkrahús Akureyrar með tveimur sjúkrabílum. Þeir eru grunaðir um líkamsárás á hvorn annan „þar sem hættulegri verknaðaraðferð var beitt,“ segir í færslu lögreglunnar án þess að það sé skýrt eitthvað frekar. 

Ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um gæsluvarðhald eða farbann en það að farbann sé nefnt bendir til þess að annar mannanna eða báðir séu erlendir ríkisborgarar.   Þeir voru báðir handteknir eftir aðhlynningu á Sjúkrahúsi Akureyrar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV