Vilja fund með ráðherra um hjúkrunarrými

29.01.2019 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsvarsmenn hjúkrunar- og dvalarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi eru ósáttir við að fá ekki að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými, sem þeir segja mun hagkvæmara en að byggja ný. Þeir segja biðlista eftir rýmum þvert á það sem heilbrigðisráðuneytið telur.

 

Forsvarsmenn Brákarhlíðar sendu ráðuneytinu bréf fyrir tveimur árum þar sem óskað var eftir að fá að breyta opnum rýmum í fjögur hjúkrunarrými með allri þeirri aðstöðu sem krafist er sem og að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Svar barst fyrr í mánuðinum frá ráðuneytinu þar sem hafnað er að breyta opna rýminu í hjúkrunarrými, en heimilað að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými, þó þannig að tvö dvalarrými komi fyrir hvert hjúkrunarrými. Ráðuneytinu var sent bréf í dag þar sem óskað var eftir fundi með heilbrigðisráðherra. Þá skrifaði stjórnarformaður Brákarhlíðar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fjallar um málið. Framkvæmdastjóri Brákarhlíðar segir það kosta um 33 milljónir að breyta rýmunum fjögur í hjúkrunarrými.

„Það kostar að byggja nýtt hjúkrunarrými frá grunni 36 milljónir rúmar, en við erum að bjóða þessi fjögur rými á innan við verði eins,“ segir Björn Bjarki Þorsteinsson framkvæmdastjóri Brákarhlíðar.

Björn Bjarki segir þetta raunhæft kostnaðarmat. Þá segir hann forsvarsmenn Brákarhlíðar ósammála heilbrigðisráðuneytinu varðandi þörfina fyrir fleiri hjúkrunarrými.

„Svar ráððuneytisins gengur út á það að staðan sé mjög góð í heilbrigðisumdæmi Vesturlands. Heilbrigðisumdæmi Vesturlands er gríðarlega víðfemt. Það nær allt frá Akranesi, vestur í Reykhólasveit, norður á Strandir og í Húnaþing vestra. Þannig að heilbrigðisumdæmi Vesturlands er mun stærra en hið gamla kjördæmi Vesturland. En staðan hér í suðurhlutanum, það er að segja hér í kringum okkur í Brákarhlíð og síðan á Akranesi er allt önnur en víðast hvar annars staðar. Það eru bara verulegir biðlistar hér og á Akranesi.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi