
Fjárlaganefnd afgreiddi ríkisfjármálaáætlun úr nefndinni í dag en nefndarálitið verður ekki birt fyrr en á morgun.
Ekki eru gerðar tillögur um að heildartekjur eða útgjöld ríkissjóðs í áætluninni breytist en þó er í athugasemdum lagt til að fjármunir verði færðir til. Meðal annars vegna athugasemda frá öðrum þingnefndum.
Ein veigamesta breytingin í ríkisfjármálaáætluninni snýr að ferðaþjónustunni en fjármálaráðherra hefur kynnt að virðisaukaskattur verði hækkaður úr neðra þrepi í 22.5 prósent. Það þýddi ríflega 16 milljarða tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Samkvæmt heimildum fréttastofu leggur meirihluti nefndarinnar til að þessum breytingum verði frestað og taki ekki gildi um mitt næsta ár heldur í fyrsta lagi í ársbyrjun 2019.
Í staðinn verði kannað að leggja á komugjöld. Þau skila hinsvegar mun minni tekjum, hefðu til dæmis skilað þremur og hálfum milljarði í fyrra. Fjárlaganefnd gerir ráð fyrir talsvert meiri hagvexti á næsta ári en spáð hafði verið og auknum tekjum ríkissjóðs.
Þá vill nefndin kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að mannvirkin á Keflavíkurflugvelli verði seld, þar með talin Leifsstöð - til að fjármagna samgönguframkvæmdir, bætur á innanlandsflugvöllum og vegabætur.
Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, vildi lítið segja um nefndarálitið en staðfesti að útgjalda og tekjuramminn væri óbreyttur. „Skjalið verður gert opinbert á morgun og ég legg áherslu á að þetta er ríkisfjármálaáætlun en ekki fjárlög þannig að við fjöllum um hana með þeim hætti. Það er óhætt að segja að við gerum ekki breytingar á þingsályktuninni sjálfri sem kom en við gerum athugasemdir og ábendingar til ríkisstjórnar til úrvinnslu fyrir næstu fjárlagagerð og við gerð næstu fjármálaáætlunar.“