Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja fjórfalda árlega gróðursetningu trjáa

12.05.2018 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson Rúnar Sn - RÚV RÚV
Skógræktendur á Íslandi vilja fjórfalda ræktun nýrra skóga á næstu fimm árum, og segja að þannig megi draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir gagnrýna að ekki sé minnst sérstaklega á skógrækt í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Skógrækt sem kolefnisbinding

Skógræktin, Landsamband skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands sendu frá sér umsögn um fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var á dögunum. Skógræktendur fagna að aukið fé sé sett til umhverfismála, en gagnrýna að ekki sé sérstaklega minnst á beinar aðgerðir með skógrækt sem kolefnisbindingu. Engin sundurliðun sé gerð á framlögum til skógræktar, náttúruverndar og landgræðslu í útgjaldaramma árin 2019 til 2023.

Skógræktendur vilja að bætt verði við fjármálaáætlunina áætlun um stóraukningu skógræktar á Íslandi, og að árleg gróðursetning trjáplantna verði fjórfölduð. Samkvæmt tillögu skógræktenda væri gróðursetning aukin í skrefum, úr rúmum þremur milljónum plantna árið 2019 í fimm milljónir árið 2020 og næði ríflega tólf milljónum árið 2023.  Stærstur hluti þessarar aukningar fari fram á löndum bænda, en einnig skógræktarfélaga og ríkis um allt land.

Brot af sekt ef markmið Parísarsáttmálans nást ekki

Þá leggja skógræktendur til að unnið verði að endurskipulagningu landnotkunar og að gerð landsáætlun í skógrækt. Kostnaður við þessa aukningu nýskógræktar er áætlaður um 15 milljarðar. Bent er á að það sé aðeins brot af þeirri upphæð sem Íslendingar þurfa að greiða náist ekki að standa við Parísarsamkomulagið, um að minnka losun kolefnis.
 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV