Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja fjölga dómurum í endurupptökudómstól

16.05.2018 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómarafélag Íslands telur að meira jafnvægi væri á skipan nýs endurupptökudómstóls ef dómararnir væru fimm og tveir þeirra stæðu utan réttarkerfisins. Í frumvarpi dómsmálaráðherra um stofnun dómstólsins er gert ráð fyrir að dómararnir verðir fjórir og að einn þeirra verði ekki dómari, fyrrverandi dómari eða starfsmaður dómstóls. Þá telur félagið að málsmeðferð við skipan „fjórða“ dómarans fái vart staðist.

Þetta kemur fram í umsögn félagsins við frumvarpið.

Dómarafélagið telur að breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu séu til bóta og raunar nauðsynlegar en þær verði að standast gagnrýna skoðun og megi ekki vekja tortryggni.

Í frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði endurupptökudómstóll í stað endurupptökunefndar. Með slíkri skipan á að taka af öll tvímæli um að dómsvaldið sé einvörðungu á hendur dómenda.  Gert er ráð fyrir að dómurinn verði skipaður fjórum dómurum, þremur frá dómstólum landsins og einn sem verður skipaður að undangenginni auglýsingu.  Dómarafélagið telur betra ef dómstóllinn væri skipaður fimm dómurum, þrír væru starfandi dómarar en tveir stæðu utan réttarkerfisins. Meira jafnvægi væri þannig komið á skipan dómstólsins „þar sem viðfangsefni dómsins er öðrum þræði að leggja mat á dómsstörf.“

Dómarafélagið nefnir einnig að miðað við þann málafjölda sem borist hafi endurupptökunefnd á liðnum árum geti starf „fjórða“ dómarans orðið það umfangsmikið að tæplega sé hægt að sinna því sem aukastarfi eins og gert sé ráð fyrir í frumvarpinu. „Því er umhugsunarvert hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa dóminn skipaðan fleiri dómurum sem koma utan réttarkerfisins, svo unnt sé í raun að sinna starfinu sem aukastarfi.“ 

Dómarafélagið gerir einnig athugasemdir við hvernig eigi að skipa dómarann sem á hvorki að vera starfandi dómari né fyrrverandi dómari eða starfsmaður dómstóls. Félagið telur raunar að sú málsmeðferð sem lögð er til í frumvarpinu fái vart staðist. Í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að dómnefnd geri ekki upp á milli hæfni þeirra tveggja umsækjenda sem hún telur hæfasta, nema hún telji annan þeirra standa hinum bersýnilega framar. 

Félagið segir að tilgangur þessa ákvæðis sé ekki útskýrt nánar og bendir á að hæfnisnefnd sé bundinn af meginreglu stjórnsýsluréttar um að ráða skuli hæfasta umsækjanda í starf sem auglýst er, hvort sem bersýnilegur munur er á milli hæfni umsækjenda eða annar og minni munur.  Ekki verði því séð nefndin geti unnið í samræmi við þá reglu nema með því að leggja mat á hæfni umsækjenda og komast þá jafnframt að þeirri niðurstöðu að einn umsækjandi sé hæfastur.

Í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands er viðruð sú hugmynd að allir dómararnir við nýja dómstólinn séu aðrir en embættisskipaðir dómarar. Slíkt gæti dregið úr þeirri tortryggni „sem kann að fylgja því að embættisdómarar fái vald til að ákveða hvort taka eigi dómsmál upp að nýju.“  Laganefndin setur jafnframt spurningarmerki við að gjafsókn verði ekki veitt vegna endurupptökumála og málskostnaður ekki dæmdur. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV