Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja fjárframlög í takt við íbúafjölgun

Úr umfjöllun Kveiks um offituaðgerðir.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Mynd úr safni.  Mynd: Kveikur - RÚV
Fjárveitingar ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja duga ekki til rekstrar og nauðsynlegrar endurnýjunar á tækjum og húsnæði og bæjarstjórn Reykjanesbæjar fordæmir skilningsleysi ráðamanna þegar kemur að stofnuninni, að því er fram kemur í bókun bæjarstjórnarinnar í vikunni.

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar, lagði bókunina fram. í henni segir að núverandi húsnæði heilbrigðisstofnunarinnar og skipulag þess hafi sprengt allt utan af sér, uppfylli ekki kröfur og hamli möguleikum til að mæta mikilli þörf fyrir aukna þjónustu. „Þjónustuþörf hefur aukist verulega á undanförnum árum í samræmi við fjölgun íbúa auk annarra veigamikilla þátta, svo sem fordæmalausrar fjölgunar ferðamanna og stóraukinnar starfsemi á Keflavíkurflugvelli,“ segir í bókuninni. Fjölgun íbúa sé einstök fyrir heilbrigðisumdæmin á landinu og mun meiri en á öðrum svæðum.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær rúma 2,8 milljarða á næsta ári, samkvæmt fjárlögum. Í bókun bæjarstjórnar segir að það sé raunhækkun upp á 7 prósent síðan árið 2016. Frá árinu 2016 til 2018 hafi íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 22 prósent og á næsta ári stefni í sambærilega fjölgun. Í bókuninni segir að auka þyrfti fjárveitingar um 281 milljón á næsta ári umfram það sem áætlað er í fjárlagafrumvarpinu.

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fordæmir skilningsleysi ráðamanna þjóðarinnar hvað varðar málefni HSS og gerir kröfu til að þetta verði leiðrétt,“ segir í bókuninni. Mikil samstaða bæjarstjórna hafi ekki haft áhrif á ákvarðanir um fjárveitingar. „Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill því hvetja þingmenn kjördæmisins sem og þingheim allan til að styðja okkur í þessari baráttu,“ segir í bókuninni.