Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja finna lausnir fyrir Hótel Reykjanes

01.02.2017 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: ja.is
Leitað verður allra leiða til að rekstri Hótels Reykjaness sé ekki stofnað í hættu. Þetta segir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hóteleigandi segir reksturinn í uppnámi vegna fyrirhugaðrar lokunar á neysluvatni til hótelsins.

Rekstur í uppnámi

Fréttablaðið greindi frá því að rekstur Hótels Reykjaness við Ísafjarðardjúp væri í uppnámi vegna þess að landeigandi í Reykjarfirði, sem verður hótelinu úti um neysluvatn, hefði ákveðið að loka fyrir vatnið til hótelsins. Ástæðan sé jarðrask á vatnsverndarsvæðinu á vegum Ferðaþjónustu Reykjaness. Framkvæmdir hafi verið bannaðar á svæðinu frá árinu 2015 en það hafi ekki verið virt. Jón Heiðar Guðjónsson, eigandi hótels Reykjaness, segir í bréfi til Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps að engar framkvæmdir hafi verið á landinu við vatnsbólið frá árinu 2004, fyrir utan þrif á vatnstanki, og biðlar til sveitarfélaganna að leitað verði lausna. Nú þegar hafi mikið verið bókað á hótelinu fyrir sumarið 2017 og óhugsandi að lenda í rekstrarstöðvun.

Sveitarfélög leita lausna

Ísafjarðarbær er landeigandi Reykjaness sem er í Súðavíkurhreppi. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að Súðavíkurhreppur beri nokkra ábyrgð á því að verða landaeigendum úti um aðgang að neysluvatni en á Reykjanesi sé fyrst og fremst heitt vatn. Hann segir að þetta hafi verið rætt meðal sveitarfélaganna undanfarin ár en engin niðurstaða fundist. Forsvarsmenn sveitarfélaganna ætli að funda um málið á morgun og að fullur vilji sé til að finna farsæla lausn fyrir Reykjanes, einnig með mögulega framtíðaruppbyggingu í huga: „Ég held við munum leita allra leiða til að rekstri þarna á Reykjanesi verði stofnað í einhverja hættu. Hvort sem að við finnum þessar lausnir með landeigendum í Reykjafirði eða með öðrum hætti.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður