Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vilja fækka álftum

01.03.2016 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Jyrki Salmi - Flickr Commons
Möguleikar kornbænda til að verja akra sína fyrir ágangi álftar eru nú ræddir á Búnaðarþingi. Margir bændur hafa íhugað að hætta kornrækt vegna ágangs fugla. Álft hefur fjölgað mjög síðustu ár. Hún er talin hafa spillt allt að þriðjungi akra fyrir kornbændum á Suðurlandi síðustu ár. Þá hefur korn þroskast hægt og ekki verið hægt að þreskja fyrr en seint.

Álft og gæs sækja mjög í kornakra þegar haustar. Vel gengur að reka gæsina, enda er hún miklu styggari. En álftin fer stutt og kemur strax aftur. Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands segir að það sé fyrst og fremst álftin sem valdi skaða á kornökrum. Hún sé stór og þungur fugl, búi til miklar flugbrautir og bæli akrana um leið.

„Álft hefur fjölgað mikið“

„Árið 2010 voru 30 þúsund álftir á Íslandi. Það er verið að meta stofnstærðina aftur núna. Það er örugglega komið þar vel yfir, þannig að henni hefur fjölgað mjög hressilega. Uppúr 1980 hafa þetta ekki verið meira en svona 15 þúsund fuglar“. Kornbændur á Suðurlandi eru sammála um að álftastofninn sé alltof stór. Einn segir að eitt sinn í haust hafi verið taldar um 5 þúsund álftir á sínum ökrum einum. „Mér þykir ólíklegt að hjá mér hafi verið hátt í fimmtungur af íslenska álftastofninum miðað við hvernig hún hópast annars staðar. Stofninn hlýtur að vera kominn langt yfir 30 þúsund“.

„Ekki almenn veiði“

Sveinn segir að kornræktin hafi ýtt undir fjölgunina, fuglinn hafi með henni aðgang að mikilli og góðri fæðu. En er ekki kominn tími til að veiða álftina? „Þetta er viðkvæm spurning. Álftin er friðaður fugl“, segir Sveinn. „Ég held að það verði seint í þá veruna að það verði leyfð almenn skotveiði á álft. Það verður örugglega ekki, en hvort mönnum verður leyft að verja akra sína með einhverjum skilyrðum, það er annað mál“.

 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV