Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Vilja fá hálendislögreglu

10.08.2011 - 18:24
Formaður Landverndar vill að komið verði á hálendislögreglu til að sinna eftirliti með utanvegaakstri, og fylgja eftir lögum um náttúruvernd.

Tatrabus, tékkneska ferðaþjónustufyrirtækið sem rekur rútuna sem sökk í Blautulónum um helgina, virðist ekki aðeins hafa stundað glæfralegan akstur, heldur einnig akstur utan vega. Formaður Landverndar segir eftirlit með utanvegaakstri í algerum ólestri.

Þegar hefur verið greint frá því að Tatrabus hafi áður komist í hann krappan á Íslandi, en rúta fyrirtækisins festist og fór á kaf í Blautulónum um helgina. Á Youtube hefur mátt sjá myndskeið þar sem sjá má rútunni ekið glæfralega yfir hálendisvegi og út í ár.

Á Facebook-síðu Tatrabus má sjá ferðaljósmyndir sem sýna rútuna fasta úti í miðju mosabarði, augljóslega utan vega. Utanvegaakstur er ólöglegur hér á landi samkvæmt lögum um náttúruvernd. Hængur er þó á þeim lögum að þar skortir skilgreiningar á því hvað sé vegur og hvað ekki.

Því hefur reynst erfitt að sakfella þá sem uppvísir verða að akstri utan vega í viðkvæmri náttúru. Umhverfisráðherra hyggst leggja fyrir haustþing frumvarp sem felur í sér breytingu á lögunum, þannig að skerpt verði á þessum skilgreiningum.

Formaður Landverndar, Guðmundur Hörður Guðmundsson, segir þó ekki nóg að gert. Eftirlit sé í algerum ólestri. Landverðir séu allt of fáir, lögreglan anni ekki eftirlitinu, og að auki þurfi að herða viðurlög við brotum af þessu tagi.

Guðmundur leggur til að komið verði á nokkurs konar hálendislögreglu. Til dæmis mætti fjölga landvörðum og færa þeim auknar valdheimildir til að framfylgja lögum um náttúruvernd, og jafnvel beita fólk sektum.