Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja endurnýja vináttusamning

25.01.2018 - 13:06
Mynd: DNC / Franska ríkið
Frakkar og Þjóðverjar stefna að endurskoðun og endurnýjun Élysée sáttmálans, en í þessari viku eru 55 ár frá því hann var undirritaður. Sáttmálinn kveður á um náið samstarf þjóðanna. Charles de Gaulle, þáverandi forseti Frakklands, og Konrad Adenauer, sem var kanslari Vestur-Þýskalands, undirrituðu vináttusáttmála í Élysée höllinni í París árið 1963.

Fjendur um langa hríð

Þjóðirnar höfðu öldum saman eldað grátt silfur, á tímum Napóleóns keisara Frakklands, höfðu Frakkar lagt undir sig stóra hluta þeirra svæða sem síðar urðu Þýskaland. Síðar á 19. öldinni báru Prússar sigur úr býtum í styrjöld við Frakka. Þýska keisaradæmið var stofnað er Vilhjálmur 1. Prússakonungur var krýndur Þýskalandskeisari í Speglasalnum í Versölum 1871. Á 20. öldinni fylgdu svo tvær heimsstyrjaldir þar sem milljónir manna féllu og nasistar unnu grimmdarverk sem áttu sér vart fordæmi í mannkynssögunni.

Stríðsöxin grafin

Að síðari heimsstyrjöldinni lokinni ákváðu þjóðirnar að grafa stríðsöxina og sögu styrjalda og ógnarverka. Fyrstu skrefin voru stigin 1950 er Evrópska kola-og stálbandalagið var stofnað að frumkvæði Roberts Schumanns, utanríkisráðherra Frakka. Það bandalag var vísir Evrópusambandsins. 1963 gerðu þjóðirnar svo Élysée vináttusáttmálann. Sendiráð ríkjanna á Íslandi og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands efndu til fundar í Veröld, húsi Vigdísar, til að minnast undirritunar sáttmálans árið 1963.  

Styrjöld óhugsandi

Enginn í Þýskalandi eða Frakklandi getur ímyndað sér að þjóðirnar heyji styrjöld segir Herbert Beck, sendiherra Þýskalands.

„Mikilvægi þessa verður aldrei ofmetið, við göngum að þessu sem sjálfsögðum hlut, það er af hinu góða, en við megum ekki gleyma því að þetta er ekki sjálfsagt og jafn eðlilegt í öðrum hlutum heimsins."

Náin samvinna

Nú má segja að fáar þjóðir vinni jafn náið saman og Frakkar og Þjóðverjar. Það samstarf hefur lengst af verið burðarásinn í Evrópusambandinu. Líklegt er að mikilvægi samstarfsins aukist enn þegar Bretar ganga úr sambandinu. Margar hugmyndir um skipulag og breytingar á Evrópusambandinu spruttu upp úr samstarfi Frakka og Þjóðverja eða hefðu ekki orðið að veruleika nema vegna stuðnings þjóðanna. Þar má nefna Schengen, evruna og innri markaðinn.

Margt líkt en margt ólíkt

Þjóðirnar eiga margt sameiginlegt, en þær eru einnig að mörgu leyti ólíkar, menningin, sagan og stjórnkerfið. Þýskaland er sambandsríki þar sem einstök ríki ráða mörgum málum, Frakkland er mjög miðstýrt ríki þar sem Parísarvaldið skiptir öllu. En samkvæmt Élysée-sáttmálanum ber þjóðunum að samræma afstöðu sína innan Evrópusambandsins. Þegar Bretar verða farnir verða Þjóðverjar og Frakkar langöflugustu ríkin í ESB með samtals 40% vergrar landsframleiðslu og 30% íbúa.

Sendiherrar skrifa saman grein um vináttuna

Í sameiginlegri grein sendiherra ríkjanna á Íslandi segir að  stjórnir ríkjanna leggi áherslu á að öll aðildarríki sambandsins taki ákvarðanir á vettvangi þess. Í greininni segir svo:

„Það er í þessu samhengi sem þjóðir okkar beggja gangast við ábyrgð sinni, andspænis sögu og framtíð álfu sem ber skylda til að tala einum rómi ef hún vill komast af. Þessari sameiginlegu ábyrgð sleppir ekki við landamæri Evrópusambandsins heldur nær hún líka til landa utan þess, eins og Íslands, samkvæmt samningum þar að lútandi."

Vantrú margra á stofnanir vandamál

Rætt var um andstöðu við Evrópusambandið á fundinum. Bretar eru að yfirgefa það og í mörgum löndum ríkir mikil tortryggni gagnvart ESB, margir telja að hagsmunum þjóðar sinnar væri betur borgið utan sambandsins. Jafnvel Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, sagði viðtali við BBC er hann sótti Breta heim um helgina að Frakkar hefðu hugsanlega kosið úrsögn eins og Bretar ef þeir hefðu staðið frammi fyrir svipaðri þjóðaratkvæðagreiðslu. Graham Paul, sendiherra Frakka á Íslandi, segir að nauðsynlegt sé að byggja upp traust. Margir vantreysti stofnunum, fjölmiðlum og hafi ekki trú á framtíðinni. Nauðsynlegt sé að vinna gegn þessu og Macron Frakklandsforseti leggi til að efnt verði til þjóðfundar í öllum ESB ríkjum til að ræða þessi mál.

Samband leiðtoga mikilvægt

Hversu náin samvinnan er ræðst oft af hversu vel Frakklandsforseta og Þýskalandskanslara semur. Það ræðst ekki endilega af pólitískri afstöðu þeirra. Þannig ríkti traust og vinskapur á milli sósíalistans François Mitterrand og íhaldsmannsins Helmuts Kohl. Ef Angela Merkel verður áfram kanslari  er Graham Paul bjartsýnn á að hún og Emmanuel Macron geti átt gott samstarf, bæði séu íhugular manneskjur, ígrundi hlutina vel. Með samræðum og samskiptum geti þau áorkað miklu.

Halda áfram að nálgast skref fyrir skref

Stefnt er að endurskoðun Élysée-sáttmálans á árinu og að leiðtogar Frakklands og Þýskalands undirriti nýjan sáttmála fyrir árslok. Herbert Beck segir að samstarfið verði nánara, sumum muni þykja of langt gengið, öðrum of skammt. Niðurstaðan verði að Þjóðverjar og Frakkar nálgist enn skref fyrir skref.

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV