Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja ekki vinna með velferðarnefnd Alþingis

08.12.2018 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Það kemur ekki til greina af hálfu fræðafólks við rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum að ræða við velferðarnefnd Alþingis á meðan Anna Kolbrún Árnadóttir á sæti í nefndinni. Þetta segir Rannveig Traustadóttir, forstöðumaður rannsóknarsetursins, í samtali við fréttastofu.

Fræðafólkið sendi Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, bréf þess efnis í gær. Í bréfinu segir að Klausturmálið og ummæli þingmannanna sex sem heyrast ræða saman á upptökum sé fræðafólkinu við rannsóknarsetrið „áfall og þungbært að verða vitni að þeim niðurlægjandi og fordómafullu ummælum sem þar voru viðhöfð um fatlað fólk, einkum fatlaðar konur sem við virðum mikils og eigum náið og gott samstarf við í baráttu fyrir mannréttindum og mannvirðingu fatlaðs fólks.“

Rannveig segir að samstarfsfólk hennar sé í áfalli yfir því hvernig talað var á barnum. Þau hafi ákveðið að bíða með yfirlýsingar á meðan Anna Kolbrún íhugaði stöðu sína. Þegar það kom svo í ljós að hún myndi sitja áfram hafi bréfið verið sent.

Anna Kolbrún hefur ekki svarað símtölum fréttastofu.

Kjarninn greindi fyrstur frá bréfinu í dag. Undir bréfið skrifa þau Rannveig, Hanna Björg Sigurjónsdóttir prófessor, James G. Rice lektor, Snæfríður Þóra Egilsson prófessor og Stefán C. Hardonk lektor. Þau segja djúpstæða fordóma, mannfyrirlitningu, hroka og vanvirðingu birtast í garð fatlaðs fólks og annarra jaðarsettra hópa í upptökunum. Það geri það að verkum að þau ætli ekki að taka þátt í samstarfi við velferðarnefnd Alþingis á meðan Anna Kolbrún Árnadóttir eigi sæti í nefndinni.

Rannveig segir að hún og samstarfsfólk hennar geti ekki gert greinarmun á þeim sem tali með þeim hætti sem gert var á barnum og þeim sem láti það óátalið þegar aðrir gera það.

Á upptökunum má heyra Önnu Kolbrúnu uppnefna Freyju Haraldsdóttur ítrekað, í þann mund sem spjall sexmenninganna fer að snúast um Freyju. Rannveig segir Ísland hafa beðið álitshnekki á alþjóðavettvangi vegna þessa máls, enda sé Freyja mjög þekkt og virt erlendis fyrir baráttu sína fyrir hagsmunum fatlaðra.

Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í fötlunarfræðum hefur verið velferðarnefnd Alþingis til ráðgjafar í ýmsum málum, og sent reglulega athugasemdir og umsagnir um mál sem nefndin hefur til umfjöllunar. Þá hafa fulltrúar setursins verið kallaðir á fund nefndarinnar til þess að veita innsýn í málefni fatlaðs fólks.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV