Vilja ekki rífa sundhöll Keflavíkur

01.02.2018 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚv - RÚV
Fjölmenni var á fundi Hollvinasamtaka sundhallarinnar í Keflavík sem haldinn var í Duus húsi í kvöld. Markmið fundarinns er að koma í veg fyrir niðurrif hússins. Á fundinum talaði m.a. Pétur Ármannsson, arkitekt og starfsmaður Minjastofnunar.   

Pétur segir að sundhöllin sé ein af nokkrum sundhöllum sem að til eru hér á landi af hendi Guðjóns Samúelssonar.

Tillaga liggur fyrir í umhverfis og skipulagsráði Reykjanesbæjar um að rífa sundhöllina og byggja á reitnum. Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir íbúabyggð á svæðinu.  Samkvæmt tillögunni á að reisa 3 - 5 hæða fjölbýlishús á svæðinum en halda eftir grunni sjálfrar sundlaugarinnar sem minnisvarða um sundmenningu á Suðurnesjum. Hann verður hluti af uppbyggingu svæðisins.

Málið kemur til afgreiðslu í umhverfis og skipulagsráði  í febrúar. Ragnheiður Elín Árnadóttir, er fulltrúi hollvinasamtaka sundhallarinnar. Hún segir að þau ætli að nota tímann vel.  „Við erum að setja af stað undirskriftarsöfnun. Við höfum stofnað hollvinafélag sundhallarinnar og við ætlum að beita öllum þeim þrýstingi og öllum þeim rökum sem við höfum fram að færa.“  
 
Minjastofnun beinir þeim tilmælum til bæjarins að þeir fresti staðfestingu deiliskipulagsins. Pétur segir að það sé rétt. Minjastofnun hafi skorað á Reykjanesbæ að bíða með samþykki skipulagsins. „Þannig að því áhugafólki sem hefur áhuga á því að finna flöt á því að varðveita húsið að því gefist kostur á því að móta sínar hugmyndir.
Telur þú að það eigi að varðveita húsið?  Já mér finnst það. Það hafa aðrir bæir sem eiga hliðstæð mannvirki Ísafjörður,  Akureyri, Akranes og Seyðisfjörður þeir hafa lagt metnað sinn í að varðveita svona byggingar og það hefur ekki hvarflað að neinum að brjóta þær niður.“

Húsið er í eigu Húsanes verktaka. Heiðar Halldórsson, einn af eigendunum segir að húsið hafi drabbast niður 25 ár. Það hafi verið selt til byggingaraðila til niðurrifs fyrir rúmum 10 árum og var sundhöllin skilgreind þannig í aðalskipulagi á sama tíma.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi