Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vilja ekki listaverk á Austurvelli

31.05.2012 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisnefnd Alþingis vill ekki að listaverki spánska listamannsins Santiago Sierra verði komið varanlega fyrir á Austurvelli því það myndi raska heildarmynd Austurvallar. Frá þessu segir í Fréttablaðinu í morgun.

Sierra vildi gefa Reykjavíkurborg verk sitt „Svörtu keiluna", sem er minnisvarði um borgaralega óhlýðni, svo fremi sem hún yrði sett upp á Austurvelli.

Í janúar var verkið sett upp gegnt þinghúsinu. Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, vill að borgin þiggi verkið og setji það nálægt Landsímahúsinu, þar sem það myndi ekki trufla opinbera viðburði.

Hafþór segir að gjöfin sé rausnarleg því höfundarlaun Sierra væru um 25 milljónir króna. Menningarráð borgarinnar hefur lagt til að verkið verði þegið en málið er nú hjá skipulagsráði.