Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja ekki borga skólagjöld karla í hjúkrun

19.04.2018 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjúkrunarfræðinemar telja brotið á sér eftir að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga ákvað að greiða skólagjöld karlkyns hjúkrunarnema. Forseti sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs HÍ óttast að nemendur muni flosna upp úr hjúkrunarfræði vegna þessa. Markmið átaksins er að fá fleiri karla í hjúkrunarfræði á Íslandi. Einungis tvö prósent hjúkrunarfræðinga hér á landi eru karlar.

Sigurður Ýmir Sigurjónsson, forseti sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands er á öðru ári í hjúkrunarfræði. Hann segir hjúkrunarnema ósátta með þessa ákvörðun. „Almenn upplifun er sú að þetta valdi hneyksli og reiði. Það eru einstaklingar sem eru í námi núna sem horfa á skráningargjöldin í heimabankanum hjá sér og eru að spá í. Ætti ég að borga þetta núna? Hver er ástæðan fyrir því að ég þarf að borga þessi skráningargjöld en karlmaður sleppur við þau?“ segir Sigurður í samtali við fréttastofu.

Félagsgjöld FÍH greiða skólagjöld karlanna

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga mun greiða skólagjöld karlkyns nemenda með félagsgjöldum. „Það sem FÍH er að gera, í raun og veru, er að bjóða karlmönnum að koma í hjúkrunarfræði. Allur peningur sem FÍH á og notar í sína starfsemi kemur í gegnum félagsgjöld hjúkrunarfræðinga. Það er illa litið á það að félagsgjöld hjúkrunarfræðinga skuli fara í það að borga karlmenn í nám,“ segir Sigurður.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður FÍH sagði í samtali við fréttastofu í gær að félagsgjöldin væru notuð í alla starfsemi félagsins. Hún telur að átakið gæti hækkað laun stéttarinnar. Aðgerðir til að jafna kynjahlutföll hafi borið árangur í öðrum greinum. Sigurður telur vandamálið felast í ímynd stéttarinnar.

„Fyrir mitt leyti tel ég að þetta átak muni skila litlu. Þar sem að skráningargjöldin hafa ekki komið í veg fyrir að fari í hjúkrunarfræði. Það er raunverulegt vandamál að karlmennsæki ekki í hjúkrunarnám á íslandi. En er þetta vandamál sem ætti að eyða peningum í, hvort þetta sé tengt kjaramálum eða samfélagslegri ímynd. Þyrfti ekki frekar að fá betri kjör frá ríkinu, þá myndu fleiri karlar koma í hjúkrun,“ segir Sigurður.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV