Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja ekki borga fyrir Félagsmálaskóla alþýðu

30.05.2016 - 23:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að lög um Félagsmálaskóla alþýðu falli brott - lögin séu tímaskekkja og ekki í þágu hagsmuna skattgreiðenda að skattfé skuli varið í rekstur skóla af þessu tagi. Ríkissjóður hefur greitt rúmar 160 milljónir til skólans frá árinu 2007

Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist þegar gildi og við gildistöku þeirra verði eignum skólans skipt og þeim úthlutað í samræmi við stofnkostnaðarframlög. Ríkissjóður hefur greitt 80 prósent af rekstrarkostnaði skólans.  Vigdís og Guðlaugur Þór telja hægt að nýta það fé sem fer til skólans betur í önnur verkefni.

Á vef Félagsmálaskólans kemur fram að hann sé starfræktur af ASÍ og BSRB. Hlutverk hans sé að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir að vinna að bættum lífskjörum lífskjörum launafólks.  Hann var stofnaður með sérstökum lögum árið 1989 og „þar með var skotið sterkum fjárhagslegum stoðum undir félagsmálafræðslu á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar,“ eins og það er orðað á vef skólans.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV