Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vilja ekki að Björgólfur taki niður stiga

13.05.2014 - 23:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Húsafriðunarnefnd fellst ekki á þá hugmynd kaupsýslumannsins Björgólfs Thors Björgólfssonar að aðalstigi Fríkirkjuvegs 11 verði tekinn niður og hann geymdur á öruggum stað. Húsafriðunarnefnd lagðist gegn fyrirhugðum breytingum sem arkitekt á vegum Björgólfs kynnti fyrir nefndinni 2012.

Hugmyndir Björgólfs að nokkrum breytingum innanhúss voru kynntar á síðasta fundi Húsafriðunarnefndar. Þar er gengið út frá því að þær verði að öllu leyti afturkræfar og Björgólfur kveðst vera reiðubúinn til að undirgangast þinglýstar kvaðir til að tryggja að svo megi vera. Hann ætli að leggja metnað sinn í að standsetja húsið samkvæmt bestu vitund og ráðum fagmanna og gera þær endurbætur sem nauðsynlegar eru til að varðveita húsið.

Meðal þess sem Björgólfur vill gera er að skipta húsinu upp í tvö notkunarrými - annars vegar fyrir almenning og hins vegar íbúð.  Í nýrri tillögu frá arkitekt Björgólfs yrði aðalstigi hússins tekinn niður og hann varðveittur í öruggri geymslu. Þannig er talið að hægt yrði að endurbyggja hann að öllu leyti á sínum upprunastað.

Húsafriðunarnefnd er andsnúinn þessari hugmynd en leggur til að lausn verði fundin til að loka efstu hæðinni án þess að stiginn verði fjarlægður. 

Húsafriðunarnefnd leggst ekki gegn þeirri hugmynd að gerður verði nýr stigi milli 1.hæðar og kjallara og telur mikilvægt að friðlýsing innra byrði hússins verði hraðað. Björgólfur vill sjálfur að ákveðnir hlutar innréttinga verði friðlýstir í samstarfi Minjastofnunar og fulltrúa eiganda.

Þetta er í annað sinn sem breytingar Björgólfs eru kynntar fyrir Húsafriðunarnefnd. Í fyrra skiptið lagðist nefndin alfarið gegn öllum breytingum og lagði til við menntamálaráðherra að innra borð hússins yrði friðlýst.

Björgólfur fól lögmanni sínum að koma á framfæri kvörtun vegna friðlýsingarinnar við Umboðsmann Alþingis en hann taldi að á henni væru alvarlegir form- og efnismarkar. Í maí í fyrra var Minjastofnun Íslands síðan falið að endurupptaka málið. 

Björgólfur keypti húsið 2007 af Reykjavíkurborg á 600 milljónir króna. Hugmyndin var að húsið yrði fært í upprunalegt horf og þar yrði safn um langafa Björgólfs, athafnamanninn Thor Jensen.

[email protected]