Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vilja eftirlitsmenn um borð í skipin

08.05.2013 - 19:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Dýraverndarsambands Íslands mótmælir ákvörðun Hvals hf. um að hefja hvalveiðar að nýju í sumar. Hvalur hf. hefur heimild til að veiða tæplega 200 dýr. Sambandið fullyrðir að ekki sé hægt að drepa svo stór dýr í hafinu á mannúðlegan hátt auk þess sem langreyður sé á válista CITES.

Í tilkynningu sem sambandið sendi fjölmiðlum í dag kemur fram að Dýraverndarsamband Íslands hvetur stjórnvöld til að koma í veg fyrir að langreyður verði veidd í sumar. Að öðrum kosti telur sambandið að útgerðin ætti sjálf að standa straum af kostnaði við störf óháðra eftirlitsaðila um borð í hvalveiðiskipunum. Þannig megi gæta að velferð dýranna auk þess að framfylgja nýjum dýravelferðarlögum þar sem stendur í 21. grein: „Dýr skulu aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti."