Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja efla Þorlákshöfn sem vöruflutningahöfn

20.09.2018 - 22:46
Mynd með færslu
 Mynd: Barði Stefánsson - RUV
Lagt er til að Alþingi skipi starfshóp til að móta stefnu um hvernig standa megi að innviðauppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn, í þingsályktun sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður. Í tillögunni er markmiðið sagt vera að byggja upp höfnina svo hún geti frekar vaxið sem inn-og útflutningshöfn.

Starfshópurinn myndi samkvæmt þingsályktunartillögunni skila tillögum til ráðherra í síðasta lagi 1. maí á næsta ári. Starfshópurinn leggi til hvernig bæta megi og auka öryggi og dýpi í og við innsiglingu í höfnina. Sömuleiðis hvernig best verði náð árangri í markaðssetningu hafnarinnar bæði innanlands og utan. 

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að í apríl í fyrra hafi færeyska félagið Smyril Line Cargo hafið ferjuskipaflutninga með ferjunni Mykinesi á milli Rotterdam í Hollandi og Þorlákshafnar með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum. Strax á þessu fyrsta ári hafi þessi tilraun skilað höfninni tekjum langt umfram væntingar. „Með tilkomu þessarar siglingaleiðar hafa farmgjöld til og frá landinu lækkað flutningskostnað einstaklinga og fyrirtækja um 40% en það er helsta ástæðan fyrir þeirri velgengni sem Þorlákshöfn og Smyril Line Cargo hafa notið. Smyril Line, sveitarfélagið Ölfus og hafnaryfirvöld í Þorlákshöfn undirrituðu samning til sex ára 24. maí sl. sem tryggir Þorlákshöfn meiri og öruggari tekjur en á reynsluárinu,“ segir í greinargerðinni

SIglingin til Þorlákshafnar sé 16 klukkustundum styttri en siglingin til Faxaflóahafna og því hægt að vera með eitt skip í vikulegum siglingum milli Íslands og meginlands Evrópu. Kolefnisspor vöruflutninga þessa leið til landsins sé því mun minna en til áfangastaða við Faxaflóa, gæti lækkað vöruverð hér á landi og gert útflutningsgreinar samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum. 

Þá sé höfnin í 50 kílómetra radíus frá markaðssvæði þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa og starfa og í um 40 til 60 mínútna akstursfjarlægð.  „Frá Þorlákshöfn eru greiðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið og Vesturland um Þrengsla- og Suðurlandsveg, um Óseyrarbrú á Selfoss og Suður- og Suðausturland, og um Suðurstrandarveg til Suðurnesja og alþjóðaflugvallarins í Keflavík,“ segir jafnframt í greinargerðinni.