Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja efla atvinnumálin á Blönduósi

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Atvinnu- og húsnæðismál eru meðal brýnustu verkefna á Blönduósi að mati oddvita flokkanna tveggja, Lista fólksins og Óslistans, sem þar bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum um næstu helgi. Í bænum er að hefjast bygging á fyrsta íbúðarhúsinu í nokkur ár.

Óslistinn býður nú fram í fyrsta sinn. Oddviti framboðsins er Anna Margrét Sigurðardóttir. Hún segir brýnt að halda í þau fyrirtæki sem eru í bænum og sömuleiðis að laða ný fyrirtækið þangað. Blönduós sé þjónustukjarni fyrir dreifbýlið og minni byggðakjarna á svæðinu. „Hér eru því ekki stórir atvinnurekendur, heldur margir minni sem þurfa hver á öðrum að halda til að samfélagið blómstri. Það er spennandi að bærinn laði til sín fleiri minni og meðalstór fyrirtæki þannig að það skapist gott jafnvægi,“ segir Anna Margrét.

Staðan er sú sama á Blönduósi og víða um land þegar kemur að húsnæðismálum. Þar vantar íbúðir en íbúum á Blönduósi fjölgaði lítillega á síðasta ári. „Eitt af þeim verkefnum sem sveitarfélagið þarf að sinna er að hafa álitlegar lóðir og hvata fyrir fólk til að byggja,“ segir Anna.

Fyrsta skóflustunga að gagnaveri

Guðmundur Haukur Jakobsson er oddviti Lista fólksins. Flokkurinn er nú í meirihluta í sveitarstjórn. „Við stöndum frammi fyrir því að sveitarfélagið er að vaxa og okkur er að fjölga aftur. Við erum með tilbúnar byggingarlóðir. Þær eru ókeypis fyrir utan gatnagerðargjöld, þetta eru ívilnanir sem við tókum upp á þessu kjörtímabili.“ Ekkert er verið að byggja á Blönduósi núna en Guðmundur segir að gámur sé kominn á eina lóðina og framkvæmdir á næsta leiti. Það verður fyrsta íbúðarhúsið sem byggt hefur verið í bænum í þó nokkuð mörg ár.

Fyrsta skóflustungan að gagnaveri á Blönduósi verður tekin næsta miðvikudag. Raforka úr Blönduvirkjun verður nýtt í verið. Guðmundur segir þetta mikinn áfanga enda hafi verið unnið að þessu í mörg ár. „Helstu stenfumálin eru að halda áfram þeirri miklu uppbyggingu sem við höfum verið með. Við þurfum að fjölga byggingalóðum og huga að atvinnumálunum,“ segir Guðmundur. 

Bæði framboð hlynnt sameiningu

Sameining sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu; Skagabyggðar, Skagastrandar, Húnavatnshrepps og Blönduóss, hefur verið til umræðu að undanförnu. Fyrirtækið Ráðrík hefur haldið utan um það verkefni og íbúafundir um málið hafa verið haldnir. Samstarfsnefnd um sameiningu allra sveitarfélaganna kom fyrst saman 31. október á síðasta ári. Oddvitar Lista fólksins og Óslistans eru hlynntir mögulegri sameiningu. Guðmundur hjá Lista fólksins kveðst ekki sjá neina ókosti við sameiningu. Anna segir Óslistann styðja öll sameiningaráform sem hafi verið til umræðu. Hún segir að íbúar á Blönduósi séu almennt jákvæðir gagnvart sameiningu en að málið sé umdeildara í nágrannasveitarfélögunum.

Á Blönduósi bjuggu 895 þann 1. janúar 2018. Sveitarfélagið er í 37. sæti yfir fjölmennustu sveitarfélög landsins. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur Listi fólksins á fjóra fulltrúa í sveitarstjórn en J-listi umbótasinnaðra Blönduósinga þrjá fulltrá. Aðeins munaði tíu atkvæðum á listunum. Valgarður Hilmarsson tók við stöðu sveitarstjóra 1. apríl síðastliðinn þegar Arnar Þór Sævarsson lét af störfum eftir 11 ár í stóli sveitarstjóra. 

Á kosningavef ruv.is er hægt að kynna sér öll sveitarfélög landsins, hvað brennur á kjósendum, hvaða flokkar bjóða fram og margt fleira sem tengist sveitarstjórnarkosningunum 2018.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir