Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja breytt eignarhald á Landsneti

09.04.2016 - 18:13
Fljótsdalslína liggur frá stöðvarhúsi Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal til álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fráfarandi stjórnarformaður Landsnets telur nauðsynlegt að breyta eignarhaldi þess og gefa almennum fjárfestum kleift að eignast hlut í fyrirtækinu. Ársreikningur Landsnets verður framvegis birtur í Bandaríkjadollurum.

Á vorfundi Landsnets fyrr í vikunni flutti Geir A. Gunnlaugsson í síðasta sinn yfirlit yfir rekstur fyrirtækisins sem stjórnarformaður. Á aðalfundi í kjölfarið lét hann af störfum og Sigrún Björk Jakobsdóttir, hótelstjóri á Akureyri, var kjörin stjórnarformaður.

Landsnet hagnaðist um rúma 4 milljarða króna á síðasta ári og heildareignir í árslok voru 103 milljarðar.

Í máli Geirs kom fram að árið 2015 verði síðasta árið sem Landsnet birtir ársreikninga í íslenskum krónum: „Í ljósi þess að Bandaríkjadollar hefur verið ákveðinn sem uppgjörsgjaldmiðill félagsins verður ársreikningur Landsnets framvegis í þeim gjaldmiðli."

Geir fór yfir eignarhald Landsnets sem er að meirihluta í eigu Landsvirkjunar. Samkvæmt raforkulögum eigi stjórn Landsnets að vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum sem stundi vinnslu, dreifingu og sölu raforku. Æskilegt sé að hluthafar geti haft eðlileg afskipti af reksti fyrirtækisins. Því sé nauðsynlegt að ákveða hvernig eignarhaldinu verði háttað í framtíðinni. 

„Hvatt er til þess að stjórnvöld, í samráði við Landsnet og eigendur, marki stefnu og undirbúi áætlun um breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins. Núverandi hluthöfum verði sköpuð tækifæri til að selja ríki, sveitarfélögum eða öðrum fjárfestum, hluti sína," sagði Geir.  Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði mikilvægt að fram færi opinber umræða um málið. 

>> 

Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu þessarar fréttar kom fram að Ragnheiður Elín vildi breyta eignarhaldi Landsnets. Hið rétta er að hún vill að málið verði rætt. 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV