
Þingmennirnir leggja til breytingu á almennum hegningarlögum. Samkvæmt breytingunni myndi liggja allt að sex ára fangelsi við líkamsárás sem valdi tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu, með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að umskurður barnungra drengja hafi tíðkast í um fimm þúsund ár, framan af með almennu samfélagslegu samþykki og skilningi á helgisiðum tiltekinna trúfélaga, aðallega gyðinga og múslima. Umskurður hafi orðið mun algengari á nítjándu öld þegar hvatt var til hans, með þeim rökum að hann kæmi í veg fyrir ýmsa kvilla og hegðun. Síðustu ár hafi aftur á móti sú skoðun rutt sér til rúms að umskurður í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum sé brot á mannréttindum drengja, því hann sé óafturkræft inngrip í líkama þeirra, sem drengirnir hafa sjálfir ekkert um að segja. Að auki séu þeir látnir þola mikinn sársauka og settir í mikla hættu, meðal annars á sýkingu.
Umskurður stúlkna bannaður í þrettán ár
Umskurður á kynfærum stúlkna var bannaður með lögum árið 2005 og liggur sex ára fangelsi við brotum gegn lögunum. Þar var þó ekki kveðið á um bann við umskurði drengja. Flutningsmenn lagafrumvarpsins segja að fagna beri skörulegri framgöngu íslenskra stjórnvalda innanlands og utan við að koma í veg fyrir umskurð stúlkna. Nú sé komið að næsta skrefi sem sé bann við limlestingum á kynfærum drengja.