Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilja banna umskurð drengja

30.01.2018 - 15:05
Mynd með færslu
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Umskurður drengja, nema af heilsufarsástæðum, yrði bannaður og allt að sex ára fangelsi lægi við brotum gegn slíkri löggjöf, ef frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur og átta annarra þingmanna Framsóknarflokksins, Vinstri grænna, Flokks fólksins og Pírata næði fram að ganga. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í dag. Lögum samkvæmt er umskurður á kynfærum stúlkna þegar bannaður en ekki er kveðið á um slíkt bann við umskurði drengja.

Þingmennirnir leggja til breytingu á almennum hegningarlögum. Samkvæmt breytingunni myndi liggja allt að sex ára fangelsi við líkamsárás sem valdi tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu, með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að umskurður barnungra drengja hafi tíðkast í um fimm þúsund ár, framan af með almennu samfélagslegu samþykki og skilningi á helgisiðum tiltekinna trúfélaga, aðallega gyðinga og múslima. Umskurður hafi orðið mun algengari á nítjándu öld þegar hvatt var til hans, með þeim rökum að hann kæmi í veg fyrir ýmsa kvilla og hegðun. Síðustu ár hafi aftur á móti sú skoðun rutt sér til rúms að umskurður í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum sé brot á mannréttindum drengja, því hann sé óafturkræft inngrip í líkama þeirra, sem drengirnir hafa sjálfir ekkert um að segja. Að auki séu þeir látnir þola mikinn sársauka og settir í mikla hættu, meðal annars á sýkingu.

Umskurður stúlkna bannaður í þrettán ár

Umskurður á kynfærum stúlkna var bannaður með lögum árið 2005 og liggur sex ára fangelsi við brotum gegn lögunum. Þar var þó ekki kveðið á um bann við umskurði drengja. Flutningsmenn lagafrumvarpsins segja að fagna beri skörulegri framgöngu íslenskra stjórnvalda innanlands og utan við að koma í veg fyrir umskurð stúlkna. Nú sé komið að næsta skrefi sem sé bann við limlestingum á kynfærum drengja.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV