Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja banna svartolíu á norðurslóðum

04.04.2018 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ísland er meðal átta ríkja sem hafa lagt til að banna notkun svartolíu á norðurslóðum. Teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun segir ólíklegt að bannið hefði mikil áhrif á íslensk skip. Þó sé mikilvægt að Ísland beiti sér fyrir því að vernda lífríki norðurslóða.

Lengi hefur verið rætt um að takmarka notkun á svartolíu og hafa náttúruverndarsamtök skorað á stjórnvöld að herða reglur í íslenskri lögsögu. Fiski- og flutningaskip mega brenna svartolíu í kringum Ísland, en samkvæmt stjórnarsáttmálanum hyggst ríkisstjórnin breyta því.

Í byrjun febrúar lögðu átta lönd til við Alþjóðasiglingamálastofnunina að banna svartolíu sem eldsneyti á norðurslóðum. Áfram yrði þó heimilt að flytja olíuna. Auk Íslands standa Bandaríkin, Þýskaland, Holland, Nýja-Sjáland, Finnland, Svíþjóð og Noregur að tillögunni.

Málið tekið fyrir í næstu viku

Sigurrós Friðriksdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, hefur unnið að málinu fyrir Íslands hönd. „Ég myndi segja að þetta væri nokkuð stórt skref, sem slíkt, ef tillagan nær fram að ganga. Það liggur ekki ljóst fyrir ennþá. Það verður fjallað um hana á fundi umhverfisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í næstu viku,“ segir Sigurrós. 

Utan íslenskrar lögsögu

Ekki er til nein algild skilgreining á norðurslóðum og í tillögunni er ekki tilgreint sérstaklega hvaða svæði er um að ræða. Sigurrós segir að bannið myndi gilda um skip innan svokallaðs pólkóðasvæðis, sem er utan lögsögu Íslands og hefði því takmörkuð áhrif á íslensk skip. „Þetta myndi eingöngu hafa áhrif á þau íslensku skip sem fara inn fyrir svæðið sem pólkóðinn gildir um. Til dæmis ef fiskiskip eru að sigla inn fyrir þetta svæði þá hefði þetta áhrif á þau,“ segir Sigurrós. 

Þó sé mikilvægt að Ísland beiti sér fyrir því að vernda lífríki norðurslóða, enda aukist hætta á olíuleka með aukinni skipaumferð sem er spáð á komandi árum. „Menn vita að ef það verður olíuhop þá er lífríkið mjög viðkvæmt þannig að það er mjög mikilvægt að við grípum til einhverra aðgerða til þess að vernda það,“ segir Sigurrós. 

Vilja að bannið taki gildi sem fyrst

Samkvæmt tillögunni gæti eitt mengunarslys haft alvarleg og langvarandi áhrif og því er lagt til að bannið taki gildi eigi síðar en 2021. Sigurrós segir óvíst hvort það takist, enda eiga ekki öll ríki innan norðurslóða aðild að tillögunni.
„Það eru ríki sem virðast mótfallin þessari tillögu og hún gæti orðið mjög umdeilt, en það er eitthvað sem kemur í ljós í næstu viku,“ segir hún. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV