Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vilja banna silunganet í hluta Skjálfandaflóa

14.08.2017 - 17:20
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Norðurþingi hefur borist ósk frá þremur veiðifélögum í Þingeyjarsýslu um að banna silungsveiði í net þar sem árnar falla til sjávar. Formaður veiðifélags Laxár segir að lax veiðist í þessi net, auk þess sem bleikjustofnar á svæðinu þoli ekki mikla netaveiði.

Það eru veiðifélögin við Laxá, Reykjadalsá og Mýrarkvísl sem hafa farið þess á leit við Norðurþing að silungsveiði í net á vatnasvæðum ánna verði bönnuð. Reykjadalsá og Mýrarkvísl falla báðar í Laxá sem síðan fellur til sjávar í Skjálfandaflóa.

Laxa- og bleikjustofnar þoli ekki netaveiði

„Annars vegar teljum við að þeir stofnar sem menn eru þarna að veiða úr, sem eru bleikjustofnar, séu tæplega það öflugir þessa dagana að það sé vert að leyfa úr þeim svona mikla netaveiði,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður veiðifélags Laxár. „Og við eftirlit í sumar þá kom í ljós að það voru laxar í netum og stofnarnir í Þingeyjarsýslu, eða í vatnasviði Laxár, hafa verið í lægð og við teljum að þeir þoli tæplega það að verið sé að stunda netaveiði úr þeim."

Takmarkaður fjöldi veiðileyfa í net

Óli Halldórsson, formaður byggðarráðs Norðurþings, segir að 10 netaveiðileyfi hafi verið auglýst í Skjálfanda og 7 eða 8 leyfi séu nýtt. Með því að auglýsa takmarkaðan fjölda leyfa sé reynt að hafa stjórn á veiðinni. Hinsvegar séu athugasemdir veiðifélaganna teknar alvarlega og málið verði því unnið áfram.

Miklir hagsmunir í húfi

Jón Helgi, sem jafnframt er formaður Landssambands veiðifélaga, telur að netaveiði á vatnasvæðum laxveiðiáa fari almennt minnkandi. „Og menn hafi haft skilning á því að það væru miklir hagsmunir í því að laxinn kæmist upp í árnar."

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV