Vilja auðlindagjald af eldi til sveitarfélaga

11.01.2019 - 12:20
Bærinn, Dróni, eyrin, Ísafjörður, Rúv myndir, yfirlitsmynd
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Ísafjarðarbær er meðal þeirra sem gagnrýna að fyrirhugað auðlindagjald á lax- og silungaeldi í sjó eigi að renna óskipt í ríkissjóð en ekki til sveitarfélaga þar sem eldið fer fram. Miðað við núgildandi lög geti sveitarfélag verið án tekna af greininni þrátt fyrir nálægð við eldið.

Gagnrýna að auðlindagjald renni óskipt í ríkissjóð

Í drögum að frumvarpi um gjald vegna nýtingar eldissvæða í sjó er gert ráð fyrir að eldisfyrirtæki greiði gjald miðað við rekstrarleyfi þeirra frá og með árinu 2020. Samband íslenskra sveitarfélaga, bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og bæjarráð Vesturbyggðar eru meðal þeirra sem gagnrýna að gjaldið eigi eingöngu að renna í ríkissjóð en ekki til sveitarfélagana þar sem eldið fer fram. Í umsögn Ísafjarðarbæjar er bent á að miðað við núverandi löggjöf gæti sveitarfélag orðið af tekjum af eldinu þrátt fyrir nálægðina ef slátrun, vinnsla og þjónusta fer fram í öðru sveitarfélagi. Þá sé eldið aðeins leyft á svæðum þar sem byggðaþróun hefur verið neikvæð síðastliðinn áratug, auknar tekjur styrki þau til að sækja fram og efla þjónustu við íbúa.

Varði fleiri en fiskeldisfyrirtæki og veiðiréttarhafa

Í umsögn sinni við drög að frumvarpi um breytingar á lögum um fiskeldi gagnrýnir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að skýrsla starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sé lögð til grundvallar frumvarpinu. Í starfshópnum hafi hvorki verið fulltrúar sveitarfélaga, þar sem fiskeldi fer fram, né fulltrúar fjölda annarra sem málið varðar, heldur fulltrúar fiskeldisfyrirtækja og landssambands veiðiréttarhafa. Það eigi ekki að vera eina markmið löggjafarinnar að ná sátt á milli veiðiréttarhafa og fiskeldisfyrirtækja um tilhögun laxeldis, heldur hljóti fleiri þættir að þurfa að koma til skoðunar eins og félagslegir og efnahagslegir þættir samfélaganna. Hagsmunir íbúa á Vestfjörðum af því að vel takist til með eldi séu talsvert meiri en möguleg neikvæð áhrif fyrir veiðiréttarhafa.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi