Vilja „ásættanlega niðurstöðu“ þingflokksins

30.11.2018 - 14:25
Mynd með færslu
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson, þingmenn Miðflokksins. Mynd: RÚV
Bæjarfulltrúar Miðflokksins í Suðurkjördæmi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau harma niðrandi ummæli sem heyrast á Klaustursupptökunum. Þar heyrast fjórir þingmenn flokksins tala illa um konur, samstarfsfólk og fatlaða.

Fulltrúarnir vona að þingflokkur Miðflokksins komist að „ásættanlegri niðurstöðu“ á fundi sínum í dag. Í samtali við fréttastofu segir Tómas Ellert Tómasson, fulltrúi flokksins í Sveitarfélaginu Árborg, að þingflokkurinn verði að finna út úr þessu máli sjálfur. Hann vildi ekki útskýra það nánar hvað „ásættanleg niðurstaða“ er í þeirra huga fyrr en að þingflokksfundinum loknum.

Í fréttatilkynningunni segir að ef niðurstaða þingflokksins verður ekki ásættanleg, muni bæjarfulltrúarnir óska eftir flokksráðsfundi þar sem félagar Miðflokksins fái tækifæri til þess að taka ákvörðun um framhaldið. „Við vonum að þingflokkur Miðflokksins komist að ásættanlegri niðurstöðu á fundi sínum í dag fyrir almenning varðandi áframhaldandi þingmennsku þeirra þingmanna sem þarna áttu hlut að máli. Að öðrum kosti óskum við eftir flokksráðsfundi þar sem félagar Miðflokksins taka ákvörðun um framhaldið.“

Undir fréttatilkynninguna skrifa Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík, Margrét Þórarinsdóttir, í Reykjanesbæ og Tómas Ellert í Árborg.