Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vilja Agnesi sem næsta biskup

16.04.2012 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Töluverður meirihluti vill Agnesi M. Sigurðardóttur sem næsta biskup samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallups. Niðurstaða úr biskupskjörinu ætti að liggja fyrir í næstu viku.

Þau Agnes M. Sigurðardóttir, sóknarprestur í Bolungarvík, og Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, hlutu flest atkvæði í biskupskosningunni í mars síðastliðinum.  Þar sem hvorugur frambjóðenda hlaut meirihluta atkvæða er kosið aftur á milli þeirra tveggja.

Atkvæðagreiðslunni lýkur á miðvikudag en henni seinkaði nokkuð þar sem umslög með upphaflegum kjörseðli reyndust gölluð.

Gallup kannaði afstöðu almennings til biskupaefnanna í liðinni viku. Spurt var: Tveir frambjóðendur hlutu flest atkvæði í nýafstaðinni biskupkosningu og verður nú kosið á milli þeirra tveggja. Hvorn frambjóðendanna myndir þú vilja sjá sem næsta biskup?

2.700 manns voru spurðir og tóku 62 prósent afstöðu. 60 prósent aðspurðra vildu sjá Agnesi M. Sigurðardóttur sem næsta biskup. 18 prósent Sigurð Árna Þórðarson en 22 prósent vildu hvorugt þeirra sem næsta biskup.

Nokkur munur er á afstöðu til frambjóðenda eftir kynjum. Nær sjö af hverjum tíu konum vilja Agnesi sem næsta biskup en fimm af hverjum tíu körlum. Þá eru fleiri karlar sem vilja  hvorugan frambjóðandann í embætti biskups.

Hver afstaða þeirra 500 manna sem hafa atkvæðarétt í biskupskjörinu er, ræðst þann 25. apríl en þá verða atkvæði talin.