Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja afhjúpa brotlega kaþólska presta

Hálsfesti með krossi ofan á biblíu.
 Mynd: Pixabay
Fimm Bandaríkjamenn sem beittir voru kynferðisofbeldi af kaþólskum prestum ætla að stefna Vatíkaninu til þess að fá nöfn og aðra upplýsingar um prestana sem brutu gegn þeim. Með stefnunni er miðað að því að knýja Vatíkanið til þess að opna skjalasafn sitt og birta nöfn þeirra þúsunda presta kaþólsku kirkjunnar sem yfirboðarar hennar hafa haldið leyndum.

Málið verður formlega lagt fyrir dóm fyrir alríkisdómstól í Minnesota í dag. Jeff Anderson, lögmaður fimmmenningana, sagði í yfirlýsingu að auk þess að fá nafnabirtinguna í gegn vilji þeir að skýrslur um prestana sem finna má í fórum Vatíkansins verði birtar og annað sem málið varðar.

Skammt er síðan Frans páfi tilkynnti að öll umdæmi kaþólsku kirkjunnar verði að gera fórnarlömbum auðveldara með að tilkynna ofbeldi. Búist var við því að holskefla nýrra kynferðisbrotamála kæmi í ljós eftir tilkynningu páfa. Hagsmunasamtök fórnarlamba segja það hins vegar ekki nóg að málin verði sett í farveg innan kirkjunnar, því hvergi sé minnst á að umdæmin verði að tilkynna yfirvöldum um glæpina.

Kaþólska kirkjan glímir við kynferðisbrotamál presta gegn börnum víða um heim. Í mörgum tilfellum hafa brotin verið framin yfir áratugaskeið, og hafa hátt settir menn innan kirkjunnar tekið þátt í að hylma yfir brotunum. Brotlegir prestar hafa svo verið færðir til í stað þess að tilkynna þá til yfirvalda.

Árið 2012 greindu sérfræðingar frá því að líklega hafi starfsmenn kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum brotið gegn um 100 þúsund börnum í gegnum tíðina. Nýverið urðu nokkrir hátt settir kirkjunnar menn að segja af sér í Bandaríkjunum eftir að í ljós kom að þeir höfðu haldið hlífiskildi yfir prestum sem níddust á börnum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV