Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Vilja aðskilja ríki og kirkju

03.10.2010 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikill meirihluti þjóðarinnar vill aðskilnað ríkis og kirkju. Ríflega 73 prósent þeirra sem taka afstöðu eru hlynnt aðskilnaði en 27 prósent andvíg. Þetta kemur fram í þjóðarpúlsi Gallup.

Þegar svör þeirra sem segjast hvorki hlynntir né andvígir aðskilnaði eru tekin með er 61 prósent hlynnt aðskilnaði, rúm 17 prósent eru hvorki hlynnt né andvíg og 22 prósent eru andvíg aðskilnaði ríkis og kirkju. Mikill munur er á viðhorfi til aðskilnaðar eftir aldri en svarendur eru almennt hlynntari honum eftir því sem þeir eru yngri. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líka almennt hlynntari aðskilnaði ríkis og kirkju en aðrir landsmenn.

Stuðningur við aðskilnað ríkis og kirkju hefur verið mældur frá árinu 1993. Lengst af var um 60 prósent fylgjandi aðskilnaði, í fyrra voru 74 prósent fylgjandi og er nánast óbreytt nú.

Ánægja með störf Karls Sigurbjörnssonar biskups hefur hrunið og mælist nú tuttugu og fjögur prósent. Tæplega einn af hverjum þremur svarendum var hvorki ánægður né óánægður og rúmlega 43% voru óánægð með störf hans. Yngra fólk og höfuðborgarbúar eru almennt óánægðari með störf biskups. Þetta er mikill viðsnúningur frá fyrri mælingu þar sem nær 62% landsmanna voru ánægð með störf Karls og aðeins tæplega einn af hverjum tíu svarendum var óánægður.

Traust til Þjóðkirkjunnar fer dvínandi. Fjórir af tíu bera mikið traust til Þjóðkirkjunnar en rúmlega þriðjungur ber lítið traust til hennar. Traust til Þjóðkirkjunnar er minna eftir því sem fólk er yngra og íbúar höfuðborgarsvæðisins bera minna traust til Þjóðkirkjunnar en aðrir landsmenn. Um aldamótin mældist traust til Þjóðkirkjunnar um 60 prósent en lækkaði smám saman niður í 50 prósent. Í fyrra mældist traustið 41 prósent og nú 38 prósent.

Fjölmargir hafa sagt sig úr þjóðkirkjunni að undanförnu. Af þeim sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna hefur einn af hverjum þremur íhugað að segja sig úr henni.